Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 82
SKAGFIRÐINGABÓK
82
við ýmis sveitastörf sem léttadrengur,
kaupamaður og vinnumaður og lítið
borið úr býtum. En sumarið 1940 var ég
í vegavinnu og þótt kaupið væri aðeins
níu krónur á dag fyrir tíu tíma vinnu, þá
fyrst gat ég lagt smávegis fyrir. Mig hafði
lengi dreymt um að komast í skóla, helst
menntaskóla og síðar ef til vill í háskóla,
en átti þess engan kost, enda voru það
helst börn embættismanna, kaupmanna
og stórbænda sem gengu menntaveginn
á þeim krepputímum sem þá höfðu lengi
verið í landinu. En þá datt mér í hug að
fara í Hólaskóla, enda blundaði líka í
mér draumur um að gerast bóndi eins og
faðir minn, Hjálmar Jónsson, hafði verið.
Hann bjó í Bakkakoti í Vesturdal, en
búskaparsagan varð stutt, því að hann féll
frá í blóma lífsins, þegar ég var á fyrsta ári.
Ég sótti því um skólavist á Hólum og dugðu
vegavinnupeningarnir og annað sem ég
átti fyrir öllum kostnaði fyrri veturinn.
Síðan var ég kaupamaður á skólabúinu
sumarið eftir og vann þá fyrir uppihaldi
seinni veturinn. Vorið 1942 brautskráðist
ég sem búfræðingur og réðst þá sem
kaupamaður að Sámsstöðum í Fljótshlíð,
þar sem var tilraunastöð í jarðrækt og
mikil kornyrkja. Þar átti ég góða daga
og lauk ekki þeirri vist fyrr en seint um
haustið. Fór ég þá til Reykjavíkur og fékk
húsaskjól hjá Herborgu eða Boggu, systur
minni, sem þar bjó með manni sínum
og áttu þau þrjú börn. Ég fékk brátt starf
sem handlangari í byggingarvinnu við
blokkirnar tvær við Hringbraut, skammt
þar fyrir vestan sem Þjóðminjasafnið reis
nokkru síðar. Um jólin brá ég mér norður
í Skagafjörð til að heimsækja móður mína,
stjúpföður og systkini í Bakkakoti. En í
janúarbyrjun fór ég aftur til Reykjavíkur
og hélt áfram við smíðarnar. Þeirri vinnu
hélt ég út febrúar, en þá var henni lokið og
ég þar með atvinnulaus.
Í atvinnuleit
EINS OG áður sagði þá var þetta mitt í
heimsstyrjöldinni síðari. Þjóðverjar höfðu
hertekið Danmörk hinn 9. apríl 1940
og Ísland þá misst samband við konung
sinn. Bretar hertóku síðan Ísland hinn
10. maí 1940 og settu hér niður öflugt
setulið. Upp frá þessu gegndi Ísland
hlutverki sem mikilvæg herstöð í miðju
Norður-Atlantshafi. Sumarið 1941 tóku
Bandaríkjamenn að sér varnir Íslands
til að létta á Bretum. Þessar fjölmennu
Jón Rafnar Hjálmarsson í Hólaskóla, tví-
tugur sveitadrengur úr Skagafirði sem ný-
orðinn búfræðingur réði sig í siglingar á
stríðsárunum.
Eigandi myndar: HSk.