Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 86
SKAGFIRÐINGABÓK
86
Skipaði hann mér þá að borða af súpu
sem kokkurinn var að elda. Ég gerði það
og hljóp jafnharðan út á borðstokkinn
og ældi öllu saman. Brytinn sagði
mér þá að borða meiri súpu. Ég gerði
það og ældi aftur og síðan aftur og
aftur. En loks hættu þessi uppköst og
ég jafnaði mig að mestu. Líklega á ég
það Geir bryta og þessu mikla súpuáti
að þakka að sjóveikin rjátlaðist af mér
smám saman og hvarf. Varð ég því brátt
Kort sem sýnir Loch Ewe-fjörðinn í Skotlandi
þar sem merktar eru inn tundurduflagirðingar
í fjarðarmynninu og kafbátanetin inn undir
eyjunni. Skipalægið innan við eyjuna Isle of
Ewe og merkjastjórnstöðin út með firðinum
til hægri (Signal Control Station).
sæmilega sjóaður eins og félagar mínir
um borð kölluðu það.
Komið til Skotlands
SIGLINGIN TIL Skotlands sóttist seint,
því að miða þurfti hraðann við það skip
sem hægast gekk. Ég vann mín störf
eftir bestu getu sem voru þau helst að
bera á borð fyrir stýrimenn, vélstjóra
og loftskeytamann, vaska upp, skúra
gólf og snúast fyrir kokk og bryta. Eftir
næstum fjóra daga á siglingu sáum við
fjöll Skotlands rísa úr sæ. Brátt var haldið
inn í þröngan fjörð nyrst í landinu
vestanverðu og heitir hann Loch Ewe
eða Ærfjörður. Fremur lág og gróðurlítil
fjöll umkringdu fjörðinn og lítið var
þar um undirlendi. Einhver bændabýli
sá ég í landi, en ekki sýndist mér þarna
mjög búsældarlegt. Engu að síður vakti
þessi landsýn og snerting við Skotland
fögnuð í brjósti mínu, því að aldrei áður
hafði ég séð útlönd. En í þessum skoska
firði var fjölsótt skipalægi öll stríðsárin
og þegar við komum var þar allt krökkt
af skipum, stórum og smáum, og yfir
flotanum sveif fjöldi risastórra loftbelgja
sem áttu að varna þýskum flugvélum
að komast of nærri skipunum. Við
lágum þarna við akkeri í nokkra daga
og biðum frekari fyrirmæla. Notuðum
við þá tímann til að æfa okkur í björgun
og voru skipsbátarnir þá settir niður
og róið um stund á firðinum og ýmis
viðbrögð margendurtekin, svo að ekkert
færi úrskeiðis ef við þyrftum að bregðast
við skyndilegri árás. Undir það síðasta
sem við vorum þarna kom dráttarbátur
með kolapramma til okkar, og fengum
við kol sem áttu að nægja okkur yfir
Atlantshafið.