Skagfirðingabók - 01.01.2014, Page 95
YFIR ATLANTSHAFIÐ Í SKIPALEST
95
sjóinn og einn sagði að hann væri kaldur
núna og annar bætti um betur og sagði að
hann væri bæði kaldur og blautur. Brátt
var orðið albjart og sólin kom upp yfir
hafflötinn. Skipalestin var mjög uppleyst
og herskipin voru enn á fullri ferð. Loks
kom svo tilkynning frá yfirstjórninni um
að hættan væri liðin hjá og var þá tekið
til við að ná flotanum saman. Það tók
talsverðan tíma, en upp úr hádegi höfðu
öll skipin fundið sína röð og sinn stað í
lestinni og eðlileg sigling hófst á ný.
Úr tilvistarkreppu í nám
VIÐ FÓRUM að vanda til Halifax, lestuðum
skipið og héldum austur yfir hafið í skipa-
lest og síðan í fárra skipa flota frá Skotlandi
til Íslands. Þegar hér var komið fannst mér
ég vera orðinn sterkefnaður og afréð því að
hætta sjómennsku, að minnsta kosti í bili.
Ég frétti líka að miklar breytingar hefðu
orðið hjá mínu fólki. Mamma [Oddný
Sigurðardóttir] og Stefán Jóhannesson
stjúpfaðir minn, höfðu endanlega hætt
búskap í Bakkakoti og flust ásamt móður
Stefáns og yngri systkinum mínum í lítið
timburhús sem í þá daga stóð í grænu
túni fyrir sunnan og neðan Varmahlíð og
nefndist Hof. Það hafði upphaflega verið
byggt sem sumarbústaður, en var allgott
sem heilsárshús. Ég settist að hjá þeim um
sinn í þessum nýju heimkynnum. Og þó
ég hefði nóg fyrir mig að leggja, vildi ég
ekki vera iðjulaus og fór í byggingarvinnu
sem entist fram á vetur. En ég var á þessum
tíma einhvern veginn milli vita og vissi
ekki hvert ég skyldi stefna. Fyrri búskapar-
draumar höfðu að mestu gufað upp, en
áfram langaði mig til að menntast eitthvað.
En þá fannst mér ég orðinn of gamall til
að fara í hefðbundið menntaskólanám og
fór jafnvel að hugsa til Stýrimannaskólans.
En þar sem ég var við smíðarnar og komið
var fram í desember, frétti ég að presturinn
á Mælifelli, séra Halldór Kolbeins, héldi
heimaskóla og kenndi eigin börnum
og öðrum ungmennum undir ýmislegt
framhaldsnám. Fannst mér tilvinnandi að
athuga þetta og hjólaði fram að Mælifelli.
Presturinn tók mér vel, en sagðist því
miður ekkert geta fyrir mig gert, því að
allt væri yfirfullt hjá sér. Svo kallaði hann
hátt fram í dyrnar og bað konu sína,
Láru Ágústu Ólafsdóttur, að færa okkur
súkkulaði. Hún kom brátt með alls kyns
góðgæti og presturinn sagði henni deili
á mér. Einnig nefndi hann erindi mitt
og að hann gæti ekki gert mér úrlausn
sakir þrengsla. Lára horfði þá á mig og
var greinileg vorkunnsemi í svip hennar.
Loks sagði svo þessi góða kona með hægð:
„Viltu ekki reyna að hjálpa honum, góði
minn! Það hljóta að vera einhver ráð,
þó fjölgi um einn.“ Þetta nægði og var
brátt fastmælum bundið að ég byrjaði
nám þarna eftir áramótin. Síðan þetta
gerðist, hef ég alltaf hugsað með hlýju og
þakklæti til þessara ágætu hjóna. Ég var
Krani við bryggju 3 í Halifax á stríðsárunum.