Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 124
SKAGFIRÐINGABÓK
124
minnist bernskudaga sinna norður í
Skagafirði fyrir löngu, löngu síðan? Hvað
man hann svo sem merkilegt til frásagnar?
Kannski ekki neitt! Eða hvað? Það þurfa
hreint ekki alltaf að vera stórviðburðir
sem ljósast standa mönnum fyrir hug-
skotssjónum ævilangt. Annað skáld,
Grímur Thomsen, kvað svo:
Endurminningin merlar æ
í mánasilfri hvað sem var,
yfir hið liðna bregður blæ
blikandi fjarlægðar.
Og það er einmitt þessi „blær blikandi
fjarlægðar“ sem getur gefið okkur, til
ævinlegrar eignar, hinar ljúfustu minn-
ingar frá litlum stundum.
Fyrir röskum 80 árum fæddist ég á
Króknum, er mér sagt (því ekki man ég
það, en tek það trúanlegt!) og meira að segja
í Gamla apótekinu (norðurendanum).
Undarleg eru örlögin, því þó dvöl mín
í Króksapóteki yrði stutt að þessu sinni,
átti það þó fyrir mér að liggja að eyða
allri minni starfsævi – meira en hálfri öld
– í öðru apóteki, hinumegin á landinu,
Reykjavíkurapóteki.
Á mínu þriðja aldursári fluttumst við
svo af Króknum upp í Tungu, eitt rýrasta
kotið í Skörðum. Gamlan, lágreistan
torfbæ á litlum og þýfðum túnbletti, en
blautar og illfærar mýrar allt um kring.
Þarna man ég fyrst eftir mér. Óljós
minningabrot.
Við sitjum í rökkrinu – bráðum verða
ljósin kveikt. Það er raulað eða sagðar sögur,
spunnið og prjónað. Rökkurstundirnar
eru minnisstæðar, svo hlýjar og notalegar.
Enn birtir mér í huga við að minnast
Tunga í Gönguskörðum á fjórða áratug 20. aldar. Horft úr suðri norður til Tindastóls.
Einhyrning ber við loft yfir baðstofustafninum en til hægri er Setinn sem einnig er kallaður
Axlarkollur. Bæjarhúsið lengst til vinstri er suðurstafn baðstofunnar og lengra til vinstri sér á
fjósið. Staka húsið næst á mynd til hægri er hesthúsið.
Eigandi myndar: HSk.