Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 133
MINNINGABROT FRÁ BERNSKUTÍÐ
133
stærsta og fallegasta garðinn á gervöllum
Króknum, ýtt undir það að hún léti
verða af því að koma sér upp svolitlum
blómagarði. Víst er það, að marga ferðina
fóru þær á milli og oft voru einhver blóm
með í för – og hellt upp á könnuna á eftir.
En hvaða blóm voru það þá sem uxu
þarna upp úr mölinni í garði ömmu
minnar? Ekki er nú víst að ég geti
munað það með vissu, því eitthvað er
víst farið að falla á minnið eftir nær þrjá
aldarfjórðunga, en reynt get ég þó að rifja
upp nokkur nöfn.
Eitt þeirra blóma sem hún hafði
mikið dálæti á voru „kristallsskálar“, sem
hún alltaf nefndi svo, en sumir nefndu
postulínsblóm og enn aðrir skugga-
steinbrjót (Saxifraga umbrosa). Þessum
kristallsskálum sínum raðaði amma öðru-
megin götunnar, en hinumegin voru
bellísar (Bellis perennis – Fagurfífill) og
áriklur (Primula auricula – Mörtulykill).
Þetta voru „kantblómin“ hennar, sem
afmörkuðu malborna götuna. Út við
girðinguna voru hávaxnari jurtir til að
gefa skjól, einkum að austanverðu, en
þaðan blés hafgolan harðast og mest.
Þarna stóðu mestu „töffararnir“ svo sem
venusvagninn (eða bláhjálmurinn –
Aconitum) og ránfangið (Tanacetum),
en báðar þessar plöntur voru víða notaðar
sem einskonar limgerði, til skjóls. Af
svona hávaxnari fjölærum blómum man
ég einnig eftir silfurhnöppum (Achillea
ptarmica), sem amma var alltaf að berjast
við að halda í skefjum því þeir skriðu
svo mikið um, einnig t.d. jakobsstiga
(Polemonium), vatnsbera (Aquilegia),
kornblóm (Centaurea) og gott ef hún átti
ekki líka vænan hnaus af lúpínum úti í
einu horninu. Af íslenskum blómum man
ég eftir þrílitu fjólunni (Viola tricolor),
sem, eins og þið líklega vitið, hefur
verið talin sú hin fræga „brekkusóley“
í frægu ljóði Jónasar Hallgrímssonar.
Einnig man ég gleym-mér ei (Myosotis
arvensis) og mjaðurtina (Filipendula
ulmaria). Eitthvað átti hún líka alltaf af
sumarblómum, að minnsta kosti man ég
eftir morgunfrú (Calendula officinalis) og
stjúpum (Viola wittrochiana), og kannski
voru þau fleiri sem henni áskotnuðust
frá vinkonu sinni, Hansínu, úr stóra
garðinum læknisins.
Já, þarna var hann, litli blómagarðurinn
hennar ömmu minnar á Króknum, fyrir
löngu, löngu síðan. Örlítill blettur með
litríkum blómum, falinn á milli húsanna
á mölinni. Ugglaust hafa fæstir bæjarbúa
nokkurn tíma veitt honum eftirtekt eða
vitað af honum, og ekki minnist ég þess
að hún fengi fólk í forvitnisheimsókn í
garðinn. Mér er nær að halda, að þetta
áhugasvið, blómaræktin, hafi legið fyrir
utan og ofan meðvitund manna í þá
daga, enda svo ótalmörgu öðru að sinna
er brýnna þótti. Annað mál var að rækta
blóm inni í stofum. Þar voru víða allir
gluggar fullir af rósum og fúksíum og
pelargóníum í niðursuðudósum með
götum á botni og vafðar marglitum krep-
pappír. Þær döfnuðu ágætavel við ein-
faldar rúður, vatnsfylltar gluggakistur og
hóflegan stofuhita. En að vera að fikta við
þetta utandyra þótti ekki ráðlegt, nema
auðvitað kartöflur, rófur og rabarbara,
sem flestum er landnæði höfðu, þótti
sjálfsagt að rækta.
Enn á ég hlýjar æskuminningar um
þennan litla blómareit á Króknum –
garðinn hennar ömmu – og þær minn-
ingar hafa einskis misst af sinni hlýju í
hafgolu og Skarðagolu langrar ævi.