Skagfirðingabók - 01.01.2014, Síða 139
GUÐRÚN ÓLAFSDÓTTIR Á BJARNASTÖÐUM
139
en líkast til fætt Jón son þeirra heima á
Bjarnastöðum – hann hefur verið heitinn
eftir Jóni Pálssyni stjúpföður hennar. Það
eru því mæðgurnar Kristín og Guðrún á
Bjarnastöðum sem báðar áttu óskilget-
in börn en ekki feðgarnir Ásmundur
á Bjarnastöðum og Jón á Þönglaskála,
eins og talið hefur verið. Klisjukenndar
hugmyndir um ólíka athafnasemi kynj-
anna í ástarlífinu láta ekki að sér hæða.
Svo fór um sögu þá. Út af henni má
leggja á ýmsa vegu. Eitt er það að fræðing-
ar, ættfræðingar sem aðrir, skyldu jafnan
varast að hrapa að ályktunum á grundvelli
fátæklegra gagna. Jón Espólín varð tvísaga
um faðerni Kristínar Þorkelsdóttur. Í
Guðrúnarþætti er komist svo að orði um
þetta (í nmgr. 97 á bls. 85):
Espólín (6564) telur Kristínu
að vísu á meðal barna Guðrúnar
Ólafsdóttur og Jóns Pálssonar á
Bjarnastöðum. „Kristín, átti Ásmund
á Bjarnastöðum, p. 2108 diff“,
stendur þar í upptalningu á börnum
þeirra Guðrúnar og Jóns. Þetta nær
auðsæilega engri átt og stangast
enda á við kirkjubókarfærsluna um
skírn Kristínar og sögn Espólíns
sjálfs á hinni tilvitnuðu blaðsíðu, nr.
2108, þar sem hann segir Kristínu
réttilega hafa verið laundóttur Þorkels
Ólafssonar. Það verður því að ætla að
þetta sé misritun Espólíns en hann
hafi ekki áttað sig á því fyrr en síðar
og þá bætt við „p. 2108 diff“, sem ber
þá að útleggja „þetta er öfugt, það er
Ásmundur en ekki Kristín sem er barn
Guðrúnar og Jóns, sbr. bls. 2108.“
Espólín hefur því ranglega talið Jón
Pálsson vera föður Ásmundar.
Nú er náttúrlega ljóst að klausuna „p.
2108 diff“ ber einfaldlega að útleggja
„frá þessu er sagt með öðrum hætti á bls.
2108“ og hefur Epsólín því verið að játa
að hann hafi ekki verið viss í sinni sök.
Mætti undirritaður hafa tekið sér þessa
hógværð þularins mikla frá Espihóli til
fyrirmyndar.
Lokið 30. desember 2013 í Lundi í Svíþjóð.
Halldór Ármann Sigurðsson.5
5 Magnússonar í Ketu á Skaga, Baldvinusonar á Syðra-Mallandi, Ásgrímssonar á Skeiði í Fljótum, Kristínar-
sonar á Bjarnastöðum, Guðrúnardóttur ljósmóður – og hananú!