Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 173
[Ó]SKILGETNAR DÆTUR ÞJÓÐARANDANS
173
ber fleyg orð Guðbrands um Gísla
„ef hann skrifaði eins og eg hefi heyrt
hann tala, þá væri það gull.“21 Gísli
Konráðsson og Bólu-Hjálmar voru
þó aðeins tveir af mörgum mönnum í
Skagafirði sem skrifuðu upp fróðleik eftir
handritum og söfnuðu þjóðsögum. Jón
Espólín sýslumaður hafði til að mynda
einnig unnið að miklu riti (Sögu frá
Skagfirðingum) sem Einar Bjarnason á
Mælifelli skrifaði upp og bætti við. Séra
Skúli Gíslason skrifaði jafnframt, að
eftir tíð Espólíns og að dæmi hans hefðu
margir í sýslunni farið að safna þjóðlegum
fróðleik. Séra Jón Norðmann í Fljótum
var t.d. „einn af ötulustu safnendum
þjóðlegra fræða, meðan hans naut við“22
enda eru um 100 sagnir eignaðar þeim
síðastnefnda í þjóðsagnasafninu og svip-
uð tala er hjá Gísla Konráðssyni.
Í öðru lagi virtust Skagfirðingar og
nærsveitungar ekki sætta sig við óréttlæti
frá hendi efri stétta og samskiptin
suður hafa hugsanlega ekki alltaf verið
góð. Skagfirðingar hafa oft, bæði fyrr
og síðar, þótt vera stórhuga í orðum
sínum og gjörðum.23 Til að mynda þótti
þeim sumum ekki mikið tiltökumál
að ríða norður í Eyjafjörð árið 1849 til
að mótmæla harðræði amtmannsins
á Möðruvöllum. Meðal þeirra sem
voru á skipulagsfundi fyrir norðurreið
voru bæði Gísli Konráðsson og Sveinn
Auðunarson, sem jafnframt var heim-
ildamaður fyrir þjóðsagnasafnið. Síðar
sama ár riðu nokkrir Skagfirðingar til
Þingvallafundar og þar á meðal Gísli
Konráðsson og Tómas á Hvalsnesi, sem
Jón Árnason fékk síðar ábendingu um
að safnaði þjóðlegum fróðleik að dæmi
Espólíns.24 Skagfirðingar höfðu þó var-
ann á þegar þeir riðu til Reykjavíkur eftir
Þingvallafund og skipulögðu undan-
komuleið. Ennfremur átti einn þeirra að
ríða norður eftir liðsauka „ef gerður væri
aðsúgur að þeim í Reykjavík.“25 Þessar
tvær ferðir Skagfirðinga til Reykjavíkur
og Eyjafjarðar benda í fyrsta lagi til
vilja þeirra til að standa fyrir sínu máli
og réttlætinu. Í öðru lagi bendir þetta
til einhverrar ólýsanlegrar kergju á milli
norðlinga og Reykjavíkurfólks.
Þessum samskiptaörðugleikum milli
landshluta má líkja við það sem mætti
kalla erjur landsbyggðarinnar og höfuð-
Sigurður
Guðmundsson,
málari.
Gísli Konráðsson,
sagnaritari.
21 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 204. Sjá einnig blaðsíður 233–234; 243, í sömu heimild. Jafn-
framt má geta þess að Konrad Maurer dvaldi um vikuskeið í Skagafirði á ferð sinni um landið og fékk þar að
gjöf fjölda handrita. Sjá: Kristmundur Bjarnason, Skagfirzkur annáll 1847–1947, 47.
22 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 104; 347
23 Sjá til mynda BA ritgerð mína: Sæbjörg Freyja Gísladóttir, Skála og syngja Skagfirðingar; rannsókn á ímynd
Skagfirðinga og aðkomufólks í tengslum við Laufskálarétt.
24 Sjá: Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 104.
25 Kristmundur Bjarnason, Skagfirzkur annáll 1847–1947, 13-16.