Skagfirðingabók - 01.01.2014, Blaðsíða 175
[Ó]SKILGETNAR DÆTUR ÞJÓÐARANDANS
175
veit eg ekki hvað sonur hans á við að
gjöra, eftir því sem af honum er látið.
En síra Benedikt mun hér um bil vilja
vita bækur sínar í Víti sem í Reykjavík.30
Þarna kemur mjög glöggt fram fyrrnefnd
kergja og Reykjavík er talin jafngildi
helvítis þegar kemur að því að varðveita
handrit norðlinga. Jón Árnason var
heldur ekki barnanna bestur í þessum
málum og þegar hefur komið fram álit
hans á handritum Bólu-Hjálmars og
Gísla Konráðssonar. Auk þess virðist
hann hafa komið heldur ómaklega fram
við Jóhannes á Gunnsteinsstöðum og
Bólu-Hjálmar, en sá fyrrnefndi þurfti
greinilega að biðja Jón oftar en einu sinni
um sama hlut:
Enn sem fyrri bið eg yður að senda
mér sögur þessar aftur, þegar þér hafið
tekið afskrift af þeim, því karlinn
[Bólu-Hjálmar] vill ekki eg fargi því,
sem hann lætur mig fá, og er mjög á
glóðum um það, sem eg sendi, því af
fáu á hann notandi afskriftir eftir, og
sumu alls engar.31
Jóhannes hafði jafnframt beðið um
peningaaðstoð fyrir Bólu-Hjálmar þar
sem hann var orðinn veikur fyrir og
betur til þess fallinn að skrifa heldur en
að vinna fyrir sér. Jón Árnason skrifaði
hjá sér á eitt þessara bónbréfa:
Eg verð ekki eftir með 2 rd. árlega
til Hjálmars, ef hann lætur allt, sem
hann skrifar og hefir samið, geymast
sem landsins eign á stiftsbókasafninu
í Reykjavík.32
Svo virðist sem Jón hafi haldið sumum
handritum Hjálmars í gíslingu í Reykja-
vík og ekki kemur fram hvort karlinn fær
uppskriftir sínar til baka eða ekki. Segja
má að hræðsla norðanmanna um eignir
sínar hafi þess vegna átt við nokkur rök
að styðjast.
Skúla Gíslasyni þótti einnig nóg um
breytingar Jóns og fleiri á handritum sem
þeim bárust, en hann setur fram ósk um
að skrásetjarar láti ekki menntun sína
standa í vegi fyrir að skrifa sögurnar upp
á tungutaki heimildamanna. Jóhannesi á
Gunnsteinsstöðum ofbýður líka, en hann
skrifar: „heldur þóttist eg hart leikinn,
að mér skyldi vera með öllu neitað um
að fá nokkurt kver léð til afritunar fyrir
lestrarfélag okkar.“33 Jón Árnason kom
því ekki endilega fram við vinnuhesta
sína af sanngirni. Hann ætlaðist til mikils
af þeim en endurgalt ekki að sama skapi.
Svo þar er e.t.v. komin enn ein hugsanleg
skýring á fjölda heimildamanna í Skaga-
firði en fáum sögnum; fólkið hefur
kannski ekki viljað láta fróðleikinn leka
frá sér suður yfir heiðar.
Niðurstöður
ÞÆR UPPLÝSINGAR SEM þessi umfjöllun
veitir kalla í raun á enn frekari rannsóknir.
Ég hef skýrt frá niðurstöðum talningar á
heimildamönnum þjóðsagnasafnsins og
30 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 104.
31 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 192.
32 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 189; 202.
33 Finnur Sigmundsson, Úr fórum Jóns Árnasonar, 94.