Skagfirðingabók - 01.01.2014, Side 180
SKAGFIRÐINGABÓK
180
áttaði skipstjóri sig á hvar þeir höfðu
strandað. Var nú skipið yfirgefið og
björgunarbátum róið inn til Haga-
nesvíkur. Þá var þar enn ekki risinn
verslunarstaður, einungis tvö smábýli
niður við sjóinn, Vík og Neðra-Haga-
nes norður með Haganesvíkinni, auk
tveggja eða þriggja verbúða og hjalla
er útgerðarmenn áttu. Auk þess var í
byggingu stórt verslunarhús í Víkinni,
sem síðar getur.
Í Vík bjó þá Þorsteinn Þorsteinsson,
síðar hreppstjóri Haganeshrepps, mað-
ur greindur og vel að sér og gat hann
skilið og talað við skipbrotsmennina
sem allir voru danskir. Var nú sendur
hraðboði austur yfir Miklavatn að
Hraunum, þar sem bjó hreppstjóri
Holtshrepps, Guðmundur Davíðsson.
Allar ráðstafanir heyrðu undir hann
þar sem strandstaðurinn var innan
takmarka Holtshrepps.
Hér varð skjótt til ráðs að taka. Fyrst
þurfti að ráðstafa skipbrotsmönnum,
senda hraðboða um sveitina og
safna mönnum til björgunarstarfa.
Annan hraðboða þurfti að senda
með tilkynningu um strandið til
sýslumanns Skagafjarðarsýslu, en
hann sat þá á Sauðárkróki. Þar var
einnig afgreiðslumaður Sameinaða
gufuskipafélagsins, Stefán Jónsson
kaupmaður. Hraðferð til Sauðárkróks
var ekki eftirsóknarverð í svartasta
skammdeginu, þótt um byggð væri að
fara því að sumar ár voru óbrúaðar og
vegir engir nema götuslóðar sem fóru í
kaf strax í fyrstu snjóum. Til fararinnar
Haganesvík um 1935. Myndin tekin yfir Bótina, norðurenda Hópsvatnsins. Húsið lengst til
vinstri er Vatnshorn, timburhús með torfveggjum, en hægra megin, upp af vatnsbakkanum, er
Grund. Húsið Brautarholt, byggt 1934, ber utanvert yfir útihúsið á vatnsbakkanum en lengra
frá er húsið í Ytra-Haganesi. Lengst til hægri eru bæjarhúsin í Efra-Haganesi.
Eigandi myndar: HSk.