Skagfirðingabók - 01.01.2014, Qupperneq 194
SKAGFIRÐINGABÓK
194
farið aftur áleiðis til útlanda á annan í
jólum um kvöldið með töluverðan farm.
„Með Egil var nú skipstjóri Ryder af Tejo,
er strandaði á Skagafirði.“15
Blaðið Ísafold birti loks 2. maí 1900
brot úr bréfi úr Fljótum sem ritað var 6.
apríl:
Gufuskipið Tejo, sem strandaði við
Almenningsnef, leystist í sundur í
tvennt, og rak báða partana svo upp
í fjöru í vetur, því járnið brotnaði og
beyglaðist að neðan, svo aðeins yfiraskjan
varð eftir. Gufuvélin með katli og öðru
liggur í botni þar fyrir framan og verður
líklega að nýju skeri þar eftirleiðis. Þessir
skipspartar voru seldir á uppboði þann
29. f.m. (mars) sinn í hvoru lagi og fóru
báðir samtals fyrir eitthvað nálægt 100
kr. Vindur, akkeri, festar og þess konar
selt sér, og fór fyrir lítið, enda er það
allt vonarpeningur á þessum stað. Það
lítilræði, sem náðist af blautum fiski úr
skipinu, varð góð björg í búi manna hér,
því meiri hlutann mátti hagnýta til þess,
þótt nokkuð yrði ónýtt af kolamylsnu og
öðru, er sest hafði í fiskinn. Þetta kom
sér vel, af því að frámunalegt fiskileysi
var hér árið sem leið, en að öðru leyti
varð lítill hagur að þessu strandi hér
í sveit, og hörmulegt var að vita það
stórfé, sem þar var, verða að engu. Eftir
fyrstu brimin voru fiskræflarnir (roð og
bein) í stórum köstum út og suður með
fjörunum, eins og stærstu þarabunkar.16
Endalok Víkings
GUFUSKIPIÐ VÍKINGUR, sem svo mjög
kemur við þessa sögu, átti ekki langt eftir.
Það var eitt af skipum Thorefélagsins
svokallaða sem hélt úti Íslandssiglingum
á þessum árum, eign stórkaupmanns
Þórarins E. Tuliniusar í Kaupmannahöfn,
með heimahöfn á Fáskrúðsfirði. Víkingur
lét í haf frá Seyðisfirði eins og skilja má í
fréttinni hér að ofan, og komst eina ferð
til Kaupmannahafnar. Skipið kom aftur
til Íslands upp úr miðjum desember,
hlaðið varningi, og hafnaði sig á Akureyri
þar sem afgreiðslu þess lauk fyrir jólin.
Yfir hátíðina lá það við Hjalteyri en sigldi
síðan vestur til Skagafjarðar, hleypti inn á
Hofsós og skipaði þar upp vörum, hélt svo
til Sauðárkróks og kom þangað hálfníu
að morgni þann 28. desember 1899 og
kastaði akkerum á fjögurra faðma dýpi.
Flutti skipið mikið af vörum til verslana
Popps og Jóhannesar Stefánssonar og var
strax byrjað að skipa upp varningi.
Sauðárkrókshöfn var á þessum tíma
lítið annað en nafnið, grunn og opin
fyrir norðanáttum og brimaði þar oft á
skammri stund. Svo var einnig nú því að
síðdegis fór að hvessa á norðan og varð
þá að hætta allri uppskipunarvinnu. Þar
sem barómetið stóð vel áleit skipstjóri
ekki þörf á að færa sig utar á meira dýpi
en veðrið gekk upp hraðar og af meiri
ofsa en hann bjóst við. Skipið lá við tvö
akkeri og 60 faðma keðju á hvoru.Taldi
Hansen skipstjóri ógerlegt að losa sig því
að væri annað akkerið dregið færi skipið
vafalítið á rek og yrði komið upp í land
áður en tækist að ná því seinna upp.
Í þrjá sólarhringa hélst skipið við í
brimgarðinum á höfninni, en klukkan
2 á gamlársdag biluðu festar og skipið
15 Austri 30. 12. 1899, bls. 142.
16 Ísafold 2. 5. 1900, bls. 99.