Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 99
N o r ð u r - K ó r e a : Í u n a ð s b a ð i h i n n a r f ö ð u r l e g u e l s k u
TMM 2013 · 4 99
Kim Il-sung háskólann í Pyongyang eða sjúkrahús í Chagang – mæla þeir af
munni fram ráð og leiðbeiningar og eru sérfræðingar í öllu. Þeir gera ekki
boð á undan sér og því verður uppi fótur og fit þegar þeir birtast skyndilega.
Leiðtoginn þarf þá að leysa vandamálið – en án þess að vera með yfirlæti sem
væri andstætt góðum siðum í Kóreu. Vandamálinu og lausn þess er því lýst á
svo einfaldan hátt að börn geti skilið um hvað málið snýst. Allt sem foringinn
segir er skrifað niður og birt í bókum eins og til dæmis: „Regnbogasilungur
er afbragðsfiskur, bragðgóður og næringarríkur.“
Þetta kann að þykja léttvæg speki en hér er mikilvægt að gera sér grein
fyrir hinu raunverulega mikilvægi – sem sé því að foringinn lagði lykkju á
leið sína og tók tíma frá mikilvægum stjórnarstörfum til að koma á staðinn
og leggja sínu fólki lið.
Ást og aðdáun allrar veraldarinnar
Meðal þess sem gestum er boðið að skoða í alþýðulýðveldinu er Alþjóðlega
vináttuhöllin, mikið safn í skógi vöxnum hæðunum við Myohyang-fjall,
norðvestur af Pyongyang, ekki langt frá vesturlandamærunum við Kína.
Safnið er á sex hæðum – gríðarmikill, steinsteyptur kassi með litríku kóresku
þaki, ekki ólíku því sem sjá má á fínum byggingum í Kína. Beggja vegna við
rammgerðar dyr standa hermenn með þykkar loðskinnshúfur, vopnaðir
silfurlitum Kalashnikov-rifflum. Þetta safn geymir allar þær vináttugjafir
sem Kim Il-sung og Kim Jong-il höfðu þegið og þar ægir öllu mögulegu
saman. Þarna eru skotheldu járnbrautarvagnarnir sem Jósef Stalín færði
Kim Il-sung 1945, gullsverð frá Gaddafi, fótbolti frá Pele, silfursamovarar
frá Vladimir Putin, standklukka frá British American Tobacco Company,
stór bangsi frá æskulýðssambandi Austur-Þýskalands, gullskreytt bað- og
svefnherbergissett frá suður-kóreskum kaupsýslumanni (klósett innifalið),
Mercedes Benz frá Vestur-Þýskalandi, stór flatskjár sem Kim Dae-jung,
þáverandi forseti Suður-Kóreu, færði Kim Jong-il í sögufrægri heimsókn
norður yfir landamærin sumarið 2000, og körfubolti, áritaður af Michael
Jordan, frá Madeleine Albright. Allar gjafir eru merktar og allar gefnar til
stuðnings heimsfriði og eilífri vináttu Norður-Kóreu og annarra þjóða; þær
skipta tugum þúsunda og koma frá ríflega 170 þjóðlöndum. Við stoppuðum
ekki nógu lengi til að ég gæti staðfest grun minn um að þarna hlyti einnig
að leynast gjöf frá Íslandi.
Ennþá tilkomumeiri er þó Kumsusan – höll sólarinnar – fyrrum höfuð-
stöðvar og heimili Kim Il-sung en nú grafhýsi hans. Það hefur verið áætlað
að kostnaðurinn við breytingar á höllinni í grafhýsi hafi verið að minnsta
kosti 100 milljón Bandaríkjadalir, á sama tíma og milljónir manna sultu
heilu hungri. Þar liggja smurðir búkar Kimfeðganna í glerkistum, raunar
aðeins Kim il-Sung þegar ég kom þarna fyrir um áratug. Kumsusan er
gríðarlega stór bygging, minnir einna helst á stórbyggingu Ceausescus í