Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 101
N o r ð u r - K ó r e a : Í u n a ð s b a ð i h i n n a r f ö ð u r l e g u e l s k u
TMM 2013 · 4 101
er jafnframt minnismerki um þá heimasoðnu hugmyndafræði sem fylgt er.
Þó er það svo að spyrji maður heimamenn um nánari útskýringar á juche,
þá fær maður yfirleitt býsna óglögg svör. Kim Jong-il segir á einum stað að
juche sé hinn „dýrðlegi ávöxtur af djúpstæðum og víðtækum hugmynda- og
kenningafræðilegum verkum Leiðtogans“ og að sköpun hennar sé endanleg
staðfesting á snilligáfu þessa mikla byltingarleiðtoga:
Leiðtoginn skóp hina miklu juche-hugmynd eftir að hafa öðlast djúpstæðan skiln-
ing á kröfum nýrra tíma er kúgaður og niðurlægður fjöldinn nær völdum yfir eigin
örlögum. Með þessu móti var honum kleift að þróa enn frekar baráttu þeirra fyrir
Chajusong (sjálfsþurftum/self-reliance) yfir á æðra stig og hefja öld juche, vatnaskil
nýrra tíma í þróunarsögu mannkynsins.
Þessi gervikenning mun vafalaust áfram gegna hlutverki sínu heima fyrir,
sem sé að setja Kim Il-sung á stall með helstu hugsuðum mannkyns-
sögunnar, setja stefnumál Kim-feðganna í fræðilegan búning og koma í
veg fyrir að hægt sé að rökræða um praktíska útfærslu stjórnvalda á kenn-
ingunni. Myers hefur bent á að ekki þurfi að lesa langt í enskum þýðingum
á juche til að átta sig á að keisarinn sé berrassaður. Þó hafi það verið svo
um langt árabil að fræðimenn á Vesturlöndum hafi látið sem þessi dular-
fulla juche-kenning stæðist gagnrýna skoðun (meðal annars á fjölmennum
alþjóðlegum ráðstefnum sem haldnar eru fram á þennan dag, einkum
kostaðar af norður-kóresku félagi í Japan) og að sú væri skýringin á því að
Norður-Kóreumenn tækju málflutning hans jafn alvarlega og raun bar vitni.
Svo er auðvitað hinn möguleikinn – og jafnvel líklegri – segir Myers, að póst-
módernískir Vesturlandabúar hafi hugsað sem svo við þennan sundurlausa
og órökrétta leiðindalestur, að vitaskuld ætti raunveruleg hugmyndafræði
nýrra tíma að líta nákvæmlega svona út.
Ekkert hefur komið fram á síðustu mánuðum og árum sem bendir til
þess að stefnubreyting sé í vændum í Norður-Kóreu. Hótanir Pyongyang-
stjórnarinnar á vordögum 2013 um að spúa kjarnorkueldi og brennisteini
yfir óvini sína hjöðnuðu tiltölulega fljótlega og þegar kom fram á sumar voru
sendimenn Kims þriðja farnir að leggja til að hafnar yrðu viðræður um að
hefja á ný starfsemi í iðngörðunum á landamærunum. Kremlólógar nútímans
lesa úr þeim slitróttu upplýsingum sem berast að norðan í samræmi við þær
hugmyndir sem þeir hafa fyrir. Umfjöllun um Norður-Kóreu á Vestur-
löndum er að verulegu leyti í klisjum: það heyrir til fágætra undantekninga
ef ekki er í fréttum um alþýðulýðveldið talað um vandræðabarn samfélags
þjóðanna, „rogue state“, síðasta vígi Stalínismans, „hermit kingdom“ og svo
framvegis.