Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 124
D ó m a r u m b æ k u r
124 TMM 2013 · 4
Hælið
Ég verð að játa það strax, að eins hrifin
ég nú er af Borgesi og Sigurbjörgu þá
freistaði skáldsaga Hermanns Stefáns-
sonar mín mest og það var hún sem ég
hakkaði í mig daginn eftir útgáfuhófið.
Með því gengst ég auðvitað klisjunni á
hönd: Hælið er glæpasaga. Eftir fyrsta
lestur var ég þó dálítið púsluð og ekki
alveg sannfærð um réttmæti þess að
‚lausnin‘ væri sú ‚augljósa‘, eða það
fyrsta sem mér datt í hug þegar lestur-
inn hófst (og í höfðinu hljómaði gamalt
uppáhaldslag með Fun Boy Three), en.22
Svo sá ég gildruna sem ég gekk ham-
ingjusamlega í.
Hælið er stórskemmtileg lesning og
aðgengilegasta skáldsaga Hermanns til
þessa, enda glæpasaga (sem hinar sögur
hans eru reyndar að einhverju leyti
líka). Áður en Hermann fór að skrifa
skáldskap var hann þekktur fyrir skrif
sem brúa skáldskap og fræði, svona
álíka og sjá má í bók bróður hans, Jóns
Halls, um bautastein Borgesar. Á vissan
hátt má segja að Hælið sé framhald af
því, verkið er ekki síður einskonar
stúdía á glæpasagnaforminu. Þetta
kemur meðal annars fram í aðalpersón-
unum tveimur, rannsóknarlögreglu-
mönnunum Aðalsteini Lyngdal og
Reyni Jónssyni, en þeir eru báðir ýktar
útgáfur fjölmargra þekktra lögga og
spæjara sem manna glæpasöguhefðina.
Tóntegundin er í sama dúr, dálítið ýkt
og ofurlítið hæðin (skáldsagan hefði
alveg getað heitið Hæðin), en þó aldrei
þannig að verkið hverfist yfir í hreina
skopstælingu: eitt af því sem gerði lestur
Hælisins svo ánægjulegan var einmitt
hversu vel Hermann heldur hárfínu
jafnvægi milli þess að skrifa verulega
fína glæpasögu, blóðuga og haganlega
smíðaða, og þess að grafa undan form-
inu með íróníu.
Og eins og vera ber í góðum glæpa-
sögum fjallar Hælið um annað og meira
en leit að morðingja, eins og titillinn
vísar til gerist sagan að mestu leyti á
hæli, nánar tiltekið Kleppsspítala, en þar
leikur morðingi lausum hala. Viðfangs-
efnið er því geðveiki og andlegir sjúk-
dómar, sem er auðvitað sérlega viðeig-
andi rammi eða grunnur fyrir glæpa-
söguna.
Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að
þeir félagar, Aðalsteinn og Reynir, eru
kallaðir á Klepp, en í kjallara spítalans
hefur fundist lík af karlmanni. Hann
hefur verið stunginn á hol. Yfirheyrslur
reynast eðlilega nokkuð flókið mál,
enda stór hluti ‚grunaðra‘ ekki með
réttu ráði. Lækna- og hjúkrunarliðið er
einnig nokkuð sérstakt og allt skapar
þetta hæfilega óreiðu.
Óreiðan kemur að hluta til vegna þess
að læknaliðið er ákaflega upptekið af því
að vernda bæði vistmenn og orðspor
spítalans, en einn starfsmannanna er
sálfræðingur og upplýsingafulltrúi. Í
þessu kemur strax fram umfjöllun um
stöðu geðsjúkra og það almenna viðhorf
að allir glæpamenn séu geðsjúkir, jafn-
vel að allir geðsjúkir séu (mögulega)
hættulegir glæpamenn. Saga geðlækn-
inga er rakin í stuttu máli, sömuleiðis
saga spítalans sjálfs, hælisins, og mörk
heilbrigðis og brjálsemi ber oft á góma.
Segja má að þau mörk tákngerist í
persónu Eggerts feldskera, sem einn
vistmanna telur sig hafa séð í kjölfar
árásar sem einn sjúklinganna verður
fyrir. Reyni finnst það algerlega fárán-
legt að blanda feldskeranum í málið og
veltir fyrir sér hvort slíkur maður sé
yfirleitt til. Hann fær þetta dálítið á
heilann og tapar áttum um stund. Og
ekki aðeins hann, í ljós kemur að einn
sjúklinganna, sá sem taldi sig hafa séð
Eggert, er líka upptekinn af Eggerti feld-
skera. Reyni finnst „óþægilegt að deila