Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 91
N o r ð u r - K ó r e a : Í u n a ð s b a ð i h i n n a r f ö ð u r l e g u e l s k u
TMM 2013 · 4 91
til af kjöti – þegar við eigum ekki mat handa fólkinu, þá er augljóslega enn
minna til fyrir skepnurnar.“
Barbara Demick bregður upp glöggri mynd af ástandinu í afar for-
vitnilegri bók sinni, Engan þarf að öfunda:
Á allri um það bil 40 km langri leiðinni frá Pyongyang til Nampo sást í hvaða mæli
Norður-Kóreubúar voru látnir taka þátt í öflun matvæla. Miðaldra skrifstofukonur
voru látnar þramma út í sveit með skóflu á öxlinni. Við vegabrúnirnar kraup gamalt
fólk og leitaði að einhverju ætilegu í grasinu. Sveitahéruðin önguðu af því sem kom
úr næturgögnum þjóðarinnar og enn var notað sem áburður. Árið áður dró verulega
úr áburðargjöfum frá Suður-Kóreu vegna þess hve samskipti ríkjanna voru pólitískt
viðkvæm. Nokkur vélbúin landbúnaðartæki voru á ökrunum, trukkar sem jusu úr
sér útblæstri eins og þeir brenndu viði og maískólfum í stað bensíns. Fólk bar stóra
sekki á bakinu og gekk lotið meðfram ryðguðum brautarteinum sem greinilega
höfðu ekki verið í notkun árum saman.
Til viðbótar þessu var stöðugt rafmagnsleysi. Sporvagnarnir stóðu kyrrir
á myrkum götunum, fullir af fólki sem beið þess þolinmótt að rafmagnið
kæmi á aftur. Í miðborg Pyongyang sá maður fólk bera vatnsfötur inn í
10–12 hæða íbúðablokkir þar sem lyfturnar sváfu í rafmagnsleysinu. Sam-
starfsmaður okkar einn sagði frá því einn daginn í hálfum hljóðum að það
hefði verið fimm stiga frost í íbúðinni hans þá um nóttina. Það var aðeins
hlýtt í öðrum tveggja turna Koryo hótelsins í Pyongyang – hinn var myrkur
og kaldur.
„Þetta er hús“
Líta verður á söguna og samhengið til að skilja hversu nú er ástatt um
alþýðulýðveldið. Eins og fyrr er nefnt var Kórea öll íhaldssamt bænda-
samfélag allt fram á síðari hluta 19. aldar. Frá 1392 og allt til 1910 var við
völd ein og sama keisaraættin, Choson, sem aðhylltist konfúsíanisma.
Samkvæmt útleggingu keisaraættarinnar byggðist samfélagið á fimm mis-
munandi, en þó náskyldum, tengslum fólks: höfðingi/þegnar, faðir/sonur;
eldri bróðir/yngri bróðir, eiginmaður/eiginkona og vinur/vinur. Samskipti
þar fyrir utan byggðust á félagsstöðu, fjölskyldutengslum, landfræðilegum
uppruna, menntun og skólavináttu (sem einnig hljómar kunnuglega í
eyrum Íslendinga). Útlendingar áttu hvergi heima í þessari heimsmynd
konfúsíanismans. Landfræðileg einangrun landsins sá að vísu til þess að
fáir útlendingar komu, nema þá sjaldan að einhverjir grannanna reyndu að
leggja skagann undir sig, og það ýtti mjög undir útlendingaótta í landinu.
Litið var á kristni sem hættulega villutrú. Sögur herma þó að skipreika
útlendingar hafi fengið góðan aðbúnað – uns hægt var að koma þeim úr
landi aftur. Í stuttu máli sagt: Kórea hafði enga reynslu af því að taka á móti