Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 58
H j a l t i H u g a s o n
58 TMM 2013 · 4
vægðarlausri og djarfri sjálfsskoðun þess sem annað tveggja veit sig hafa
brotið gegn öðrum, einstaklingum eða samfélaginu, eða er sakaður um að
hafa gert það. Af fullri hreinskilni beitir hann sig vægðarlausri sjálfsgagn-
rýni, gaumgæfir verk sín og athæfi og flýr ekki af hólmi fyrir því sem hann
eða hún sér. Þegar um raunverulegt brot eða yfirsjón er að ræða, heiðarlegt
uppgjör og félagslega heilbrigðan einstakling vaknar samviskan, eftirsjá,
sorg eða sektarkennd segir til sín og einstaklingurinn heldur yfir sér dóm
sem getur orðið skefjalaus sé brotið alvarlegt. Á máli guðfræðinnar kallast
þetta iðrun en á hefðbundnu málfari kirkjunnar contritio cordis eða sundur-
kramning hjartans. Hér er vísað til djúps sálfræðilegs og tilfinningalegs
veruleika sem leitt getur til sárra andlegra kvala. – Þetta stig iðrunarferlisins
er ekki takmark í sjálfu sér enda getur það leitt til alvarlegs niðurbrots með
langvinnum afleiðingum sé staðar numið á því. Það er þess vegna aðeins
undanfari uppbyggilegs uppgjörs en leiðir í mörgum tilvikum til sjúklegs
ástands haldi einstaklingurinn ekki áfram á iðrunargöngu sinni.
Annað stigið er ekki sálfræðilegt heldur félagslegt. Það felst í því að sá sem
gengist hefur á hólm við sjálfan sig lýsir niðurstöðu sinni með orðum og
upplýsir samfélagið þar með um verk sín og gjörðir en jafnframt það mat sitt
að honum eða henni hafi orðið á. Í þessu getur falist játning á lögbroti eða
glæp en einnig afstæðari brotum t.d. að viðkomandi hafi gert eitthvað sem
telst löglegt en siðlaust og þar með sagt sig á opinn eða dulinn hátt úr lögum
við samfélagið. Þetta er stig opinberunar eða játningar, stund sannleikans,
og nefnist játning í orðum eða confessio oris á málfari kirkjunnar.
Þriðja stigið sem og hið fjórða eru einnig félagsleg. Á því fyrra sýnir sá sem
játað hefur með orðum að hann eða hún er fús til að mæta afleiðingum gerða
sinna, leiðrétta mistök sín, skila aftur þeim gróða sem fenginn hefur verið
með ranglátum hætti ásamt því að taka út dóm sinn og refsingu ef því er að
skipta. Á málfari kirkjunnar kallast slíkt yfirbótarverk eða satisfactio operis.
Að þeim loknum tekur fjórða og síðasta stig ferlisins við. Það felst í því að
aftur er litið á einstaklinginn sem fullgildan í samfélaginu, tekið að standa
upp fyrir honum og leiða hann eða hana til þess sætis sem viðkomandi ber.
Slíkt kallast aflausn eða absolution á máli kirkjunnar.
Í upprunalegu umhverfi sínu var þetta ferli trúarlega skilgreint. Hinn seki
prófaði sig með aðstoð prests frammi fyrir Guði oft á grundvelli svokallaðs
skriftaspegils sem var forskrift eða tékklisti sem leiða skyldi í ljós afbrot
fólks eða syndir. Þær voru síðan játaðar í skriftum fyrir presti sem hlýddi
á játningu syndarans, lagði á hann eða hana yfirbótarverk og veitti loks
aflausn í krafti þess umboðs er hann hafði þegið í vígslu sinni. Þrátt fyrir
þetta virðist það félagslega endurreisnarkerfi sem hér var lýst merkingar-
bært í veraldlegu samhengi án hinna trúarlegu forsendna. Þá koma ýmsar
stofnanir samfélagsins og embætti í stað hins trúarlega kerfis eða kirkjunnar
áður. Eins getur samfélagið í heild komið fram sem sá aðili sem tekur við
játningunni og veitir endurreisnina eða aflausnina þegar það tekur þann sem