Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 45
E i t u r
TMM 2013 · 4 45
„Eitur.“
„Um hvað ertu að tala? Léstu þau drekka eitthvað fokking te eða hvað?“
„Ekki þau – heldur hana. Það er ekkert að teinu. Það á að lengja lífið.“
„Ég vil ekki lengja lífið ef ég þarf að drekka svona sull til þess. Svo geta þeir
fundið eitur í líkamanum eftir dauðann, hvort eð er.“
„Ég held að það eigi ekki við um jurtaeitur. Að minnsta kosti virðist eng-
inn hafa haft rænu á því að kanna það. Hún var ein af þessum stúlkum sem
fengu gigtarsótt í æsku og leið lengi fyrir það, gat ekki stundað íþróttir, varð
alltaf að setjast og hvíla sig. Dauði hennar kom engum á óvart.“
„Hvað gerði hún þér eiginlega?“
„Hún var stúlkan sem maðurinn minn varð ástfanginn af. Hann ætlaði að
fara frá mér og giftast henni. Hann sagði mér það. Ég gerði allt fyrir hann.
Ég og hann, við unnum saman við þetta hús. Hann var allt sem ég átti. Við
áttum engin börn af því hann vildi það ekki. Ég lærði trésmíði og þó að ég
væri hrædd við að standa uppi í tröppu þá gerði ég það samt. Hann var lífið
mitt. Og hann ætlaði að sparka mér fyrir þessa gagnslausu væluskjóðu sem
vann í nemendaskránni. Allt sem við höfðum unnið fyrir átti að renna til
hennar. Var það sanngjarnt?“
„Hvernig útvegar fólk sér eitur?“
„Ég þurfti ekki að útvega mér það. Það var hérna fyrir utan í bakgarðinum.
Það var rabbarbarabeð hérna frá því fyrir löngu. Það er hæfilega mikið af
eitri í æðum rabbarbarablaðanna. Ekki í stilkunum, stilkarnir eru það sem
við borðum, allt í fína lagi með þá, en mjóu litlu rauðu æðarnar í rabbarbara-
laufunum, þær eru eitraðar. Ég vissi þetta, en ég vissi ekki nákvæmlega hvað
mikið þyrfti af eitrinu til að það virkaði, svo það sem ég gerði var eiginlega
meira svona tilraun. Heppnin var með mér, mörg atriði féllu mér í hag. Í fyrsta
lagi var maðurinn minn burtu á ráðstefnu í Minneapolis. Hann hefði auðvitað
getað tekið hana með, en það var sumarfrí og hún varð að halda skrifstofunni
gangandi. Annað atriði: Hún hefði getað verið með einhverjum. Einhver
annar hefði getað verið þarna. Og hún hefði getað verið tortryggin út í mig.
Ég varð að gefa mér að hún vissi ekki að ég vissi. Hún hafði komið í kvöldverð
heim til mín, það var gott á milli okkar á yfirborðinu. Ég varð að treysta á að
maðurinn minn væri sú manngerð sem ýtir öllu á undan sér, að hann hefði
sagt mér þetta til að sjá hvernig ég tæki því en hann hefði ekki sagt henni að
hann hefði sagt mér. Og þá getur maður spurt: Hvers vegna að losa sig við
hana? Hann gæti enn verið á báðum áttum. Nei. Hann hefði alltaf haldið
einhvern veginn í hana áfram. Og jafnvel þó að hann gerði það ekki var hún
búin að eitra líf okkar. Hún hafði eitrað mitt líf svo ég varð að eitra hennar líf.
Ég bakaði tvær bökur. Eina með eitri og aðra án eiturs. Auðvitað merkti
ég þá sem var ekki með eitri. Ég ók í háskólann og náði í tvo kaffibolla og
fór á skrifstofuna til hennar. Ég sagði henni að ég hefði átt erindi í bæinn,
hefði átt leið framhjá háskólasvæðinu og séð þetta huggulega bakarí sem
maðurinn minn væri alltaf að tala um, svo ég kom við þar og keypti tvær