Tímarit Máls og menningar - 01.12.2013, Blaðsíða 5
M a r g r a h e i m a s ý n
TMM 2013 · 4 5
íslenskan, er eina tungumálið í heiminum sem gefur milliliðalausan aðgang
að þessum handritum, að þeirri veröld sem í þeim birtist, hvort sem það
eru Íslendingasögurnar, Sturlunga, Eddukvæðin eða hvað annað sem ritað
er á hin gömlu skinn. Það er ekki svo lítil meðgjöf. Íslenskan er lykillinn að
þessum fornu sögum og um leið eru handritin lykillinn að íslenskunni.
Þetta samspil hefur þjónað okkur vel í gegnum tíðina og mun gera það
áfram og tryggja viðgang tungumálsins vegna þess að sögur og kvæði sem
handritin geyma búa yfir þeim galdri að höfða til okkar á öllum tímum. Það er
engin ástæða til þess að ætla að það breytist neitt í framtíðinni. Tíminn hefur
ekki megnað að draga úr þýðingu handritanna af þeirri einföldu ástæðu að
þau geta aldrei verið okkur dauður hlutur, hafður upp á punt í sérsmíðuðum
hirslum. Þvert á móti eru þau síkvik í menningarheimi okkar og alsjáandi
á mannlegt eðli – það eðli sem lítið breytist þótt ár og dagar líði. Það á ekki
minnstan þátt í hinu ákjósanlega samspili fornritanna og tungunnar. Þau eru
í senn forgömul og síung. Í þeim eru settar fram athugasemdir og spurningar
um hegðun mannsins og þeim er svarað með þeim hætti að enn í dag er litlu
við að bæta. Í þeim má finna vísdómsorð sem gilda á öllum tímum og eiga
við um alla tíma og svara spurningum um okkur sem manneskjur í fortíð og
nútíð og framtíð – um kosti okkar vissulega en ekki síður galla. Fornritin eiga
alltaf erindi við okkur. Við höfum getað leitað til þeirra beint og fundið þar
einskonar þjóðarsál eða kjarna í tilvist okkar fámennu eyþjóðar.
Meðal þess sem þau kenna okkur er að fara varlega þegar við sýslum með
fé. Dýrkeypt hefur okkur reynst að hundsa þau varnaðarorð. Handritin
kenna okkur að reyna að vera ekki eitthvað annað en við erum. Þau kenna
okkur að gleyma ekki uppruna okkar. Við erum ekki bankaþjóð. Við erum
hin fullkomna andstæða við bankaþjóð. Við erum bókaþjóð. Við ættum
ekki að gleyma því eða gera lítið úr því eða þykja það síðra hlutskipti en við-
skiptavafstur hverskonar. Staðreyndin er sú að þótt við séum kannski ung að
árum ef litið er til sögu Evrópu, erum við gömul menningarþjóð. Handritin
hafa séð til þess. Þau eru í raun ómetanleg stærð í okkar menningarlegu til-
vist og því er óþarfi að gleyma. Það má vera að allt hafi farið í vaskinn hjá
bankaþjóðinni en kannski að upp úr öskunni hafi bókmenntaþjóðin risið á
ný og sé sterkari en áður. Við erum of fámenn til þess að einblína í sífellu á
hagvöxt í peningum. Miklu fremur eigum við að mæla hagsæld í menningu
og þekkingu og menntun. Það er sú eina vísitala sem máli skiptir. Hagvöxtur
menningar.
Þetta tvennt vinnur auðvitað saman ef menn fara ekki fram úr sér og
halda skynsamlega á spilunum. Því verður ekki neitað að á Íslandi ríkti
hámenning á miðöldum. Þá var hér velsæld með ábatasamri verslun og
siglingum til fjarlægustu staða, eins og Helgi Guðmundsson rekur í fróðlegri
ritgerð í bók sinni Handan hafsins. Hann telur upp nokkrar ástæður þess að
hagfelldar aðstæður sköpuðust hér á Norður-Atlantshafi til þess að leggja
grunninn að hámenningu, sem skýrast kom fram í ritlistinni. Hann bendir á