Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Blaðsíða 56
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
56 TMM 2016 · 4
hann er vakinn eftir stuttan svefn á veitingahúsi segir hann: „Í hvaða þorp
hef ég villst? Er þá höll hérna?“ (8). Getum við trúað honum? Eru þetta láta-
læti? Markviss blekking? Bjargræði villuráfandi manns? Það á að reka hann
burt úr greifadæminu vegna þess að hann virðist vera þar í leyfisleysi en þá
tilkynnir hann skyndilega að hann sé landmælingamaður og að greifinn hafi
kallað sig til starfa. Allt bendir til að hann sé að villa á sér heimildir og það
kemur honum í opna skjöldu, sem og líklega flestum lesendum, þegar þessi
starfsráðning er staðfest af hálfu hallarinnar. Hins vegar fylgir ekki í sögunni
nein staðfesting á því að K. sé landmælingamaður og í ljósi utangarðsstöðu
hans í þorpinu er starfsheitið býsna kaldhæðnislegt; honum gengur ekki vel
að kortleggja eða mæla nokkurn skapaðan hlut. Hann reynir þó að kanna
staðinn á eigin forsendum og lætur nokkuð fara fyrir sér en virðist þó ein-
kennilega illa áttaður. Um þetta mætti nota frásagnarfræðileg hugtök, en hér
verður látið nægja að segja að hvorki sögumaður né söguhöfundurinn (höf-
undurinn innan verksins, það merkingarskapandi afl sem „birtist“ í verkinu
sem heild) myndi skýrt samband við þennan K. og fyrir vikið verður sam-
band lesanda við hann líka óglöggt og jafnvel ráðvillt.
Spurningin „Hver sér hvað?“ nær því einnig til lesandans. Svo undarlega
vildi til, rétt um það leyti er ég var að huga að síðustu leiðréttingum á próf-
örk Hallarinnar, staddur erlendis snemma árs 2015, að ég rakst af hendingu
á nýlega bók sem ég hafði ekki heyrt af en kallaði með heiti sínu beint inn í
hugleiðingar mínar um Höllina, í lok áralangs ferðalags okkar meðþýðanda
míns um skáldverkið. Þessi bók heitir What We See When We Read og er
eftir Peter Mendelsund. Hann er bóka- og kápuhönnuður og beitir í þessari
bók óspart svart-hvítri mynda- og prenthönnun sem tjáningarleið í tengslum
við texta sem fjallar um fyrirbærafræði lesskynjunar. Hvað er það sem við
sjáum þegar við lesum? Það ýtti svo enn frekar við mér að á miðri framkápu
bókarinnar, sem er svört með hvítum bókstöfum, er lítil mynd af skráargati
– mynd sem er þó jafnframt eins og gylltur spegill. Eftir það kom mér ekki
á óvart að Höllin skyldi vera á meðal fjölmargra skáldsagna sem við sögu
koma í umfjöllun og grafískri túlkun Mendelsunds á sjónreynslu lesandans.
Vart hafði ég lokið við bókina þegar ég, tveimur dögum síðar og heim-
kominn, fékk í hendur aðra nýja bók úr óvæntri átt – bók sem geymir
fundargerðir Tilraunafélagsins í Reykjavík frá því snemma á tuttugustu öld
og tengt efni. Þessi bók, sem gefin er út af Karlottu J. Blöndal, er einnig mjög
sérstakur svart-hvítur prentgripur. Kápan í þessu tilviki alhvít eða raunar
bláhvít eins og snjór verður stundum, en hluti verksins eru fjörutíu blöð
(áttatíu blaðsíður) sem eru alsvört og ótölusett, en þó talin með eins og sést af
blaðsíðutali í framhaldinu. Þessar dökksíður enduróma bókarheitið: Raddað
myrkur, en á titilsíðu eru einnig þessi einkunnarorð „Sést ljós og maður í
því“.6 Ekki verður hér gerð sérstök grein fyrir inntaki þessarar bókar, þeirri
forvitnilegu innsýn sem hún veitir í miðilsfundi sem þróast jafnvel út í reim-
leika, og í sviðsetningu sem virðist leika á mörkum þekkingar og blekkingar