Tímarit Máls og menningar - 01.12.2016, Side 81
E l í n , ý m i s l e g t
TMM 2016 · 4 81
lakkið er að mestu flagnað af bárujárninu og appelsínugult ryðið étur sig
inn að timbri.
Á heimleiðinni skellur myrkrið á borginni. Elín hlustar á útvarpsfréttir.
Lögreglan lýsir eftir fölleitum manni í úlpu með hanska. Þetta er í byrjun
febrúar og Elín veltir fyrir sér hver sé ekki fölleitur í úlpu með hanska.
Fyrir morgundaginn þarf hún að ljúka lestri á leikriti sem sett verður upp
um haustið. Verkið er eftir ungt leikskáld, Ellen Álfsdóttur, stúlku um tví-
tugt. Sagan hermdi að handritið væri alveg tilbúið, að uppbyggingin á því
væri fullkomin, að ef dramatúrgurinn myndi reyna að færa svo mikið sem
eina kommu færi allt í vitleysu. Persónusköpunin var víst með eindæmum
skýr og stíllinn algerlega einstakur.
Faðir Ellenar, Álfur Finnsson var frægur rithöfundur sem látist hafði
nokkrum árum fyrr. Hann hafði líka skrifað fyrir leikhús og reyndar hafði
Elín líka unnið við nokkrar uppsetningar á verkum hans.
Uppúr nítjánhundruð og áttatíu byggði hún hól úr torfþökum sem
sprengdur var upp á hverri sýningu. Um leið og tjöldin voru dregin frá.
Kvöld eftir kvöld.
Hún fletti beint upp á persónulýsingunum og pírði augun.
Pabbinn:
Klessa af notuðum plástrum, sumir gegnsósa. Samt er ekkert að.
Hún stendur á fætur og fer inn í stofu. Allt er á haus. Vinnustofan étur stöð-
ugt í sig fermetrana hennar. Á borðstofuborðinu er þykkur plastdúkur og
undir honum margra kílóa haugur af jarðleir. Úr leirnum miðjum og uppúr
plastinu sveigist horn sem hún er að móta. Hornið á að líkja eftir nashyrn-
ingshorni sem spilar stórt hlutverk í kvikmynd, sem á að skjóta um sumarið,
en leikstjórinn vildi af pólitískum ástæðum forðast að nota alvöru horn.
Heiminn þyrsti í unga snillinga. Elín hafði fylgst með nokkrum þeirra slá
í gegn og síðan ýmist hverfa eða raða sér á bekk með öðrum óspennandi
atvinnuskáldum. Yfirleitt var það ekki snilligáfan sem heillaði heldur bara
æska og ferskleiki. Húðin á þeim frekar en hæfileikarnir. Vonin um eitthvað
nýtt sem lagðist eins og huliðshjálmur yfir þetta eldgamla sem mennirnir
höfðu fram að færa, aftur og aftur og aftur.
Elín finnur lesgleraugun sín hjá fjarstýringunni og fer svo aftur inn í
eldhús, sest á nýjan leik við lestur en nær ekki að halda einbeitingu. Þegar
hún hafði slegið upp nashyrningi í leitarvélinni komu upp ótal nærmyndir
af sárum og síðan hafði hún ekki getað hætt að hugsa um þessa aðgerð, að
rífa hornið framan úr nashyrningi. Svo voru hornin seld á svörtum markaði.