Hugur - 01.01.2014, Page 259
Hverjir eru þeir og hvar eru þær? 259
tilgangi. En að eigna þeim áform um að leggja af allar myndlíkingar við allar að-
stæður, hvað þá að þröngva aðferðum sínum upp á almenning með valdi, er með
öllu úr lausu lofti gripið og eiginlega bara andstyggilegur rógur.
Rangfærslur í kaflanum halda áfram: Á bls. 118 er því haldið fram að rökgrein-
ingarheimspekin hafi orðið til eftir að Heimspekilegar athuganir Wittgensteins
komu út á 6. áratugnum. Þetta hljómar mjög undarlega. Yfirleitt er talað um að
rökgreiningarheimspekin hafi orðið til á fyrstu árum tuttugustu aldar, með Frege,
Russell og Moore. Hér velti ég því reyndar fyrir mér hvort um þýðingarvillu sé að
ræða. Það sem varð til með seinni Wittgenstein, eða Heimspekilegum athugunum,
er það sem kallað hefur verið heimspeki hins daglega máls (e. ordinary language
philosophy, stundum kallað mannamálsheimspeki á íslensku). Á bls. 119 hafa tvö
mikilvæg nöfn dottið út: „Málvísindin gripu kenningu Wittgensteins um „mál-
leikina“ á lofti og tóku að fást við það samhengi sem hið talaða mál var í hverju
sinni. Á sjötta og sjöunda áratugnum unnu Englendingurinn John Langshaw og
Ameríkaninn John Rogers upp úr henni kenningu um málathafnir.“ Hér vantar
auðvitað lykilnöfnin Austin á eftir Langshaw og Searle á eftir Rogers, enda eru
þessir ágætu menn betur þekktir sem J. L. Austin og John R. Searle. Einnig er
villandi að tala um málvísindi hér því mennirnir eru/voru heimspekingar og betur
færi á að kenna þá við málspeki eða heimspeki tungumálsins.
Umræðan um ónákvæmni í kaflanum um Wittgenstein er bara sýnishorn þar
sem svo vill til að ég er ágætlega að mér um efnið og því fljót að koma auga á
rangfærslur. Ég er auðvitað síður í aðstöðu til að meta réttmæti þeirra kafla sem
fjalla um efni sem ég veit minna um. Og hér vakna aftur áhyggjur af aðferðum
Prechts. Hann skrifar fyrst og fremst fyrir lesendur sem vita lítið fyrir um efnið
og eru því ekki í aðstöðu til að leiðrétta villur eða leggja sjálfstætt mat á réttmæti
þess sem í bókinni stendur. Þeir þurfa að taka Precht á orðinu og þeim er ætlað
að gera það. Nokkurra heimilda er getið í viðauka aftast en að öðru leyti skrifar
Precht alveg frjálst frá eigin brjósti. Hann notast ekki við tilvísanir inni í texta
og þannig má segja að hann tali alveg án ábyrgðar. Þannig veit lesandinn ekkert
hvaðan höfundur hefur það sem hann heldur fram hverju sinni. Í sjálfu sér þarf
kannski ekki að ætlast til þess að allar bækur séu fullar af neðanmálsgreinum og
tilvísunum og settar upp eins og fræðibækur. En í þessu tilfelli er verið að halda
ýmsum hlutum fram sem staðreyndum og höfundur stillir sjálfum sér upp eins
og hann viti um hvað hann er að tala. Lesandinn hlýtur að mega treysta því að
höfundurinn sé að segja nokkuð satt og rétt frá og þannig verður það bagalegt
þegar hann getur haldið fram hverju sem er án þess að þurfa að rökstyðja það eða
geta þess hvaðan hann hefur það.
Ætla má að ónákvæmni Prechts sé jafnvel enn meiri þegar hann fjallar um
taugavísindi og sálfræði en um heimspeki þar sem hann er jú ekki sérfróður um
þær greinar. Þar sem ég hef ekki heldur sérþekkingu á þeim sviðum er ég ekki
í góðri aðstöðu til að greina þá ónákvæmni en keimurinn virtist ósköp svipaður
mörgu sem lesa má í hinum ýmsu tímaritsgreinum. Precht segir þarna frá ýms-
um rannsóknum, hugmyndum, kenningum og athugunum og margar þeirra eru
áhugaverðar en í heildina virðist umfjöllunin fremur yfirborðskennd.
Hugur 2014-5.indd 259 19/01/2015 15:09:42