Strandapósturinn - 01.06.1988, Page 62
Lýsti ég henni nákvæmlega og spurði hvort lýsing sú gæti átt við
einhverja konu þar á staðnum, lífs eða liðna. Urðu þau mjög
undrandi yfir lýsingu minni og sögðu að hún ætti hárrétt við konu
sem dáið hefði þar í þorpinu síðastliðinn vetur.
Örðugt átti ég að fella mig við þá niðurstöðu, því að konan sem
ég mætti var áþreifanleg. Bað ég um að mér væri útveguð mynd af
þeirri konu er þau ætluðu mig hafa séð. Var mér þá fengið stórt
myndaalbúm. Var þar aðeins ein mynd af henni. Ég þekkti hana
strax aftur.
Eftir það var ég ekki í neinum vafa um að konan sem ávarpaði
mig með áður sögðum tveim orðum, var löngu dáin og grafin. —
Síðar frétti ég, að konan við grindurnar sem fyrr er drepið á og
virtist gefa mér gaum, sá aðeins mig og furðaði sig á tilburðum
mínum, sem að vísu var mjög eðlilegt af henni, þegar þess alls er
gætt, sem áður er sagt.
Einnig frétti ég það, að kona þessi sem ég sá og heilsaði mér,
hafði heitið Kristín og verið mjög hneigð fyrir andarannsóknir
meðan hún lifði. Hafði hún látið þau orð falla, að fullan hug hefði
hún á því að gjöra vart við sig eftir brottförina til annars heims.
6. Dularkall
Nokkru eftir að síðasta frásögn gjörðist, fóru sjómennirnir sem
ég var hjá í róður að venju. Eftir heimkonuna voru þeir fátalaðir
gagnstætt venju. Spurði ég þá um orsök fáleika þeirra. Kom þá
svo, að þeir sögðu mér smásögu þessa:
Þegar þeir voru í síðasta fiskiróðri og voru staddir á miði sem ég
kann ekki að nefna og voru á „baujuvakt" sem kallað er, sváfu þrír
þeirra en einn vakti.
Kom hann niður til að vekja hina og hita kaffið. En er þeir
höfðu skamma stund rabbað saman, heyra þeir að kallað er uppi á
þiljum:
„Því eruð þið allir niðri!“
Segir þá formaðurinn, Sigurður Pétursson, einum manninum
að fara upp á þiljur og hafa tal af kallanda, sem muni vera á báti í
nánd.
60