Andvari - 01.01.2018, Blaðsíða 55
54 HJALTI ÞORLEIFSSON ANDVARI
En var ekki unnt að hugsa sér, að hann væri skynjaður og skilinn til fulls af annarri
æðri sál með næmari taugar og öflugri æðaslög – sem ef til vill kynnu að streyma
frá strönd til strandar gegnum ljósvakahafið langt, langt fyrir ofan huga hans?
Niður þessa hafs heyrðist ekki, þó hann byrgði eyrun og hlustaði með hjartanu, og
öldur þess sáust ekki brotna, þó hann léti ljós sinna innstu, dýpstu drauma skína í
öllum sínum ljóma. – Nei, hann gat ekki elskað þessa sál, þó hún væri til, því hann
gat ekki snortið hana með huganum, og hjartað í honum skalf af árangurslausri
ofraun, þegar hann vildi byrgja ímynd þessarar sálar inni í því. Það var ekki elska,
það var öllu fremur ótti, sem hann fann til.11
Þrátt fyrir að vera eitthvað sem maðurinn þráir og sækist eftir er leitin, sem
augljóslega hefur trúarlegar skírskotanir, að hinum eina sannleik eilífðar-
verkefni sem mun ekki bera árangur. Sögupersónan finnur fyrir tilvist ein-
hvers æðra sem hefur bein áhrif á gang lífs hans þó að hann hafi ekkert
um það að segja og þar af leiðandi upplifir hann miklu frekar ótta gagnvart
því en væntumþykju. Þetta er hin tilvistarlega angist í ljóðum Einars. Sama
hvað maðurinn leggur á sig mun hann ekki hljóta annað en brotakennda
sýn á sjálfan sig og tilveruna nema þá hugsanlega við dauðann þegar sálin
kemst yfir þau takmörk sem líkaminn setur henni og rennur í djúp alver-
unnar, hverfur aftur til upphafsins. Þessi afstaða virðist einnig koma fram í
„Deginum mikla“ frá 1909 þar sem látinn maður fer inn í ljósið, upplýsist af
þekkingu, en ekki í myrkrið við dauða sinn:
[…]
Svo breiddist út fang svo bjart og sterkt,
sem bar hann svo hátt – upp í daginn mikla.12
Það var með ljóðagerðinni sem Einar stundaði þessa leit sem hann vissi þó
að næði ekki lengra en á yfirborðið. „[…] [H]ann rakst á ofurefli sitt [þegar
hann reyndi að komast út fyrir takmörk hversdagslegrar reynslu og skyn-
semi], en gerði þó sífellt nýjar og nýjar atlögur að því að sækja á „vonlausu
klifin […]“,13 sagði Sigurður Nordal. Þó má ekki horfa fram hjá að Einar
taldi mögulegt að fá innsýn í handanveruleikann, líkt og persónan í Gullskýi
upplifði tilvist hins æðsta í gegnum uppljómun. Um alveruna notaði hann
líka guðshugtakið. „„[… A]ð vera til“ er að vera skynjaður af guði […]“,14
ritaði hann til dæmis í greininni „Alhygð“ 1926. Sókn eftir skilningi á fyrir-
bærinu, tilverunni í heild sinni, veruleikanum í sjálfum sér, var hið háleita
markmið sem hann fann manninum á tímum vantrúar og tilvistarkreppu.
Eðli leitarinnar hjá Einari fannst Sigurði gefa tilefni til að líta á hann sem
eitt af „[…] mestu andlegu (religiösu) skáldum […]“15 Íslendinga en undir-
strikaði að það hefði ekkert með hefðbundnar kennisetningar trúarbragða að
gera. Tilgreinir hann sérstaklega kvæðið „Dettifoss“ frá 1905 þar sem hann