Andvari - 01.01.2018, Blaðsíða 60
ANDVARI LÍFHYGGJUMAÐUR EÐA RÓMANTÍKER? 59
Nietzsche: „[… Hann var] sannfærður um kraft trúarinnar og mátt bænar-
innar, og sjálfur lifði hann oft innilegu bænalífi, þegar einhvern vanda bar
að höndum og honum fannst hann þurfa á meiri styrk og þreki að halda.“31
Þá virkar ekki fullnægjandi að spyrða hann við rómantík 19. aldar.
Í grein sem Einar skrifaði í Eimreiðina árið 1930 undir yfirskriftinni
„Sjónhverfing tímans“ tjáir hann þá skoðun sína að tíminn sé blekking,
sjónhverfing, sem hái manninum. Það sem hann á við með því er sá ágalli
mannsins að sjá tímann aðeins sem fortíð, eitthvað sem hafi eyðst, horfið og
komi aldrei aftur. Allt sem hann skynji felli hann undir þennan „skugga“ og
upplifi því ekki heildina, það er fortíðina sem hluta af nútíð og framtíð. Þess
vegna hafi honum ekki tekist að fá skilning á sambandi orsaka og afleiðinga:
Vér sjáum ekkert nema aðeins yfirborð orsaka og afleiðinga í hreyfivél sólnaheims
eins og vér lítum hana með berum, moldblinduðum augum. En við smásjána
liðast hlekkir orsakanna sundur, og vjer horfum yfir hnattvélina miklu, undir
órjúfanlegum lögmálum.32
Einar hafði löngu áður en hann ritaði þetta mótað markmið leitarinnar sem
fjallað var um hér á undan. Hið andlega afl sem byggi innra með hverjum
og einum varð að beisla til að yfirvinna takmörk efnisins, sem birtust til að
mynda í þeim þrönga stakki sem skilningarvitum mannsins væri sniðinn,
og komast þannig nær fullum skilningi á veruleikanum. Um þetta var Einar
viss í sinni sök, eins og Sigurður Nordal vakti athygli á út frá áðurnefndu
kvæði, „Dettifossi“:
Mannkyninu er ætlaður miklu meiri hlutur en að hagnýta sér náttúruöflin.
Mannssálin sjálf er afl, „aflið, sem í heilans þráðum þýtur“. Þetta afl er ekki
framleitt af heilanum, heldur komið frá hinni miklu uppsprettu andans, líkt og
straumurinn í rafleiðsluþráðunum frá orkustöðinni. Með æðri þekkingu getum
vér náð taumhaldi á þessari andlegu orku […]. En [… Einar] trúir því líka, að með
ræktun hugarfarsins magnist máttur mannsandans, vilji hans geti klofið björgin,
sýn hans náð út yfir hina helfjötruðu veröld takmarks og tíma, hann geti skynjað
guðdóminn, horfzt í augu við hann, án þess að deyja. […] Hann skilur þetta ekki til
fulls, en skynjar það sem í djúpum draumi.33
Hjá Einari samsvaraði reynslan af því að upplifa tilvist hins æðsta, eins og
persónan í Gullskýi gerir, því sem Bergson átti við með að hljóta innsýn í
varanleikann. Hún er einstakur ávinningur sem hlýst í gegnum hið skapandi
innsæi, þekking á heildstæðu samhengi lífsins og tilverunnar. Í kvæðinu
„Útsær“ frá 1916 er eins og hafið verði handanheimurinn sem manninum er
hulinn en hann hefur vitneskju um innra með sér þar sem í honum býr and-
leg uppspretta sjálfs hans sem leitar stöðugt aftur til upprunans: