Andvari - 01.01.2018, Blaðsíða 80
ANDVARI SJÁLFBÆRT FÓLK? 79
Náttúran sem andleg móðir
Þegar litið er á það hvernig búskap Bjarts í Sumarhúsum er lýst í Sjálfstæðu
fólki kemur í ljós að bóndinn sjálfur er langt frá því að vera í sérstökum
tengslum við náttúruna – þvert á móti er hann firrtur frá henni þótt firring
hans sé af nokkuð öðru tagi en firring unga fólksins sem birtist í skógarferð-
inni sem fjallað var um hér að framan. Á hinn bóginn má finna í sögunni
merki þess að Bjartur sé tengdur náttúrunni á alveg sérstakan hátt. Sú nátt-
úra tengist þó ekki búskap hans nema með óbeinum hætti.
Einn þekktasti kafli sögunnar lýsir því þegar Bjartur fer einn á fjöll í leit
að gimbrinni Gullbrá sem hann saknar úr leitum að hausti. Eins og kom
fram hér að framan er sögumaður býsna fjarlægur Bjarti þegar hann lýsir
fyrstu skrefum hans sem sjálfseignarbónda í Sumarhúsum. En þegar Bjartur
er kominn einn á fjöll í eftirleit gjörbreytist samband sögumanns við hann.
Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé í eina skiptið í sögunni þar sem sögu-
maðurinn horfir sömu augum á veruleikann og Bjartur. Þegar komið er inn
á öræfin, við Jökulsá, rennur skynjun þeirra fullkomlega saman:
Fáir þekktu betur en Bjartur í Sumarhúsum þá króka og kima í afréttum þar
sem fé kann að leynast eftir síðustu gaungur. Hann var uppalinn undir þessari
víðlendu heiði austarlega, og hafði lifað fjármaður vestan hennar öll sín æskuár,
sjálfseignarbóndi bjó hann í einum dali hennar, þekti hana frá vori til vetrar úr ótal
smalaferðum, í ilmi og fuglasaung, í nepju og þögn, og hann var henni venslaður í
ætt sauðfjárins. En heiðin hafði líka annað gildi fyrir þennan mann en hið verklega
og hagræna. Hún var hin andlega móðir hans, hans kirkja, hans betri heimur,
einsog hafið hlýtur óhjákvæmilega að verða farmanninum. Þegar hann gekk einn
um heiðina á heiðskírum frostdögum síðla hausts, og rendi sjónum um víðáttu
öræfanna, og fann hinn kalda hreina blæ fjallanna á andliti sér, þá staðreyndi
hann einnig kjarna ættjarðarljóðanna, fann sig upphafinn yfir hinn smámunalega
hversdagsleik bygðanna og lifði í þeirri undursamlegu frelsisvitund sem við ekkert
er líkjandi, nema ef vera skyldi við ættjarðarást sauðkindarinnar sjálfrar, sem deya
mundi á fjöllum sínum, væri henni ekki smalað til bygða með hundum. Á þvílíkum
haustferðum, þegar hann gekk drag úr dragi, búngu af búngu á hásléttunni, einsog
leið hans lægi gegnum sjálfan óendanleikann, þá truflaði ekkert hina stoltu skynjun
skáldsins. Fátt þroskar betur skáldgáfuna en einvera á laungum fjallferðum. (98)
Ég hef feitletrað hér orð sögumanns um það að heiðin hafi annað gildi fyrir
Bjart en hið verklega og hagræna, einmitt vegna þess að hann metur alla
aðra hluti og allt annað landslag á nákvæmlega þá mælikvarða. Heiðin er
andleg móðir Bjarts og jafnvel kirkja, þótt hann sé annars algerlega frábitinn
öllu andlegu, hvort sem það tilheyrir kristindómi, hjátrú eða trúarbrögðum
Persa, sem Rauðsmýrarmaddaman predikar yfir honum og sveitungum hans
í brúðkaupi þeirra Rósu. Í þessum kafla er líka formálalaust talað um Bjart
sem skáld, án þess að þar örli á nokkurri íróníu af hálfu sögumanns.