Andvari - 01.01.2018, Blaðsíða 87
86 JÓN SIGURÐSSON ANDVARI
Þorsteinn lýsir hugsunum föður hennar, Herra Brynjólfs biskups Sveinssonar:
Hann hafði ekki séð það, en sá það í dag,
það sagði hvert einasta sporið,
að Ragnheiður hefði þann höfðingjabrag,
að hún gæti kórónu borið.
Hún bar þetta mannsbragð, sem mest ríður á,
og móður hans herðar og vanga.
Hann var ekki á alþýðu svipurinn sá,
og svo mundi kóngsdóttir ganga. (44)
II
,,Með því svo er tilfallið sem fallið er, hvað guð náði og forbetri...“. Með
þessum orðum hefst vottorð þriggja klerka, dagsett 19. febrúar 1662, um
barnsburð Ragnheiðar Brynjólfsdóttur fjórum dögum áður, 15. febrúar 1662
(Brynjólfur 1942:128). Þegar Herra Brynjólfi biskupi Sveinsyni, föður henn-
ar, var sagt frá þessu þagði hann við og fór síðan með orð sem gríski sagna-
ritarinn Heródótos hafði eftir Psammetikusi Egyptalandskonungi, á 6. öld
f.Kr., þegar honum var sagt að dóttur hans hefði verið kastað fyrir krókódíla
í Nílarfljóti: ,,Mala domestica maiora sunt lacrymis“: Fjölskyldusorgir eru
þyngri en tárum taki (Jón H. 1903:292. Jón E. 1828:30).
Ragnheiður Brynjólfsdóttir, einkadóttir þessa siðavanda og stranga kirkju-
höfðingja, sór sem framar segir opinberlega heilagan eið í Skálholtsdómkirkju
11. maí 1661, 19 ára gömul, að hún hefði ekki karlmanns kennt (Brynjólfur
1942:123-124). Og rúmum níu mánuðum síðar ól hún son utan hjónabands.
Kynslóðum saman hafa menn, konur sem karlar, spurt: Hvað var kirkj-
an eiginlega að skipta sér af slíku máli? Kunna menn einhver fyrirmæli
frá Jesú Kristi sem skýri slík afskipti? Menn þekkja auðvitað ákvæði lög-
málsins, en fagnaðarerindi Frelsarans átti að leysa undan hörðum viðjum
þess – eða hvað? Ástæða er til að minnast þess sem Frelsarinn sagði um
bersyndugu konuna: ,,Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elsk-
ar hún mikið.“ Og síðan segir hann beint við hana: ,,Syndir þínar eru fyrir-
gefnar.“ (Lúk.7,39) Um konu sem átti að grýta fyrir hórdóm sagði Kristur:
,,Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og síðan sagði hann
við hana: ,,Ég sakfelli þig ekki heldur.“ (Jhs.8,4)
Hvers konar afskipti voru þetta þá eiginlega? Hvaða athæfi var þetta?
Dómkirkjan og sjálfur faðir ungu konunnar standa yfir henni með umvönd-
un og ásökun.
Kirkju og kristni hefur verið álasað fyrir þessa atburði, beint og óbeint.