Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 13
ÁSDÍS HelGA ÓSkARSDÓTTIR
12
Breski bókmenntafræðingurinn Nicola Rivers telur jafnframt að það
henti vel að líta á póstfemínisma sem hugmyndafræðilega uppstokkun sem á
rætur í fyrri bylgjum en kemur upp á yfirborðið á þeim tíma sem kenndur er
við þriðju bylgju femínismans. Rivers byggir sína rannsókn á þessari nálgun
sem og póstfemínisma sem hugarfari, eins og Gill gerir, einkum vegna þess
hve útbreiddur hann er innan poppmenningarinnar40 og þeirri afstöðu er
jafnframt fylgt hér. eins og Rivers bendir á er poppmenningin svo samofin
þessu póstfemíníska hugarfari að erfitt er að átta sig á hvar póstfemínismi
endar og fjórða bylgja taki við, einkum vegna tengsla fjórðu bylgju við popp-
kúltúrinn.41
Hér verður engu að síður gerð tilraun til þess – og miðað er við árið 2009
sem þann tímapunkt í íslenskri kvennabaráttu sem fjórða bylgja femínism-
ans fer að taka á sig mynd, eins og nánar verður fjallað um í næstu köflum,
en í síðari hluta greinarinnar verða tekin dæmi um birtingarmyndir hennar
í íslenskum kvennabókmenntum.
1.2 Póstfemínismi og myndun fjórðu bylgju
Susan Faludi færði rök fyrir því í bók sinni, Backlash (1992) að feðraveldið
hafi snúist til gagnárásar eftir uppgang femínismans á áttunda og níunda
áratugnum; það hafi verið varnarviðbrögð feðraveldisins sem óttaðist valda-
skerðingu og póstfemínisminn hafi tekið sér stöðu með reiði þeirra og
höfnun. Póstfemínistar hafi þannig aðgreint sig frá óvinsælum femínistum
annarrar bylgjunnar.42 Þetta endurspeglast meðal annars í því að margir
hafa verið tilbúnir til þess að skilgreina sig sérstaklega sem jafnréttissinna
fremur en femínista.43 Sem fyrr segir er póstfemínismi afar umdeilt hugtak,
en eins og Alda Björk Valdimarsdóttir hefur bent á er hann, „[b]urtséð frá
öllum ágreiningi […] hluti af nútímalegu samfélagi nýfrjálshyggju og síð-
kapítalisma – og tilheyrir sem slíkur neyslumenningu, einstaklingshyggju
og póstmódernisma“44, auk þess sem hann einkennist af „minnkandi áhuga
á stofnanabundnum stjórnmálaum og „aktívisma“ – eða „aðgerðarstefnu.“45
40 Nicola Rivers, Postfeminism(s) and the arrival of the fourth wave, bls. 16.
41 Sama heimild, bls. 16.
42 Sarah Gamble, „Postfeminism“, bls. 45–46, 48. Sjá Susan Faludi, Backlash. The un-
declared war against women, london: Chatto & Windus, 1992.
43 Þorgerður einarsdóttir, „Jafnrétti án femínisma, pólitík án fræða? Um þáttaskil í
íslenskri jafnréttisumræðu“. Ritið 2/2002, bls. 9–37, hér bls. 9.
44 Alda Björk Valdimarsdóttir, Jane Austen og ferð lesandans, bls. 136.
45 Sama heimild, bls. 136.