Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Page 32
„leIðIN eR INNÁVIð OG UPPÍMÓTI“.
31
dagdraumana er staðreyndin sú að ég forðast ókunnugt fólk. Ég
óttast að það hlæi að mér, rétt eins og krakkarnir í skólanum hlógu;
til að dylja hræðsluna. […]. Því ég get ekki mótmælt röddinni sem
mælir af slíkri yfirvegun að mótrökin verða jafnóðum að engu. Þess
í stað leyfi ég fullyrðingum hennar að breiða mjúka dulu yfir augun
á mér og hangi áfram í pilsfaldi mömmu. Ræðst gegn mínum eigin
löngunum og tek undir með röddinni þegar hún sönglar ertandi
röddu: „Þú ert flogaveik …“131
Sjúkdómurinn hefur vald til þess að svipta Diddu sjálfræði með því að kasta
henni inn í flogið hvenær sem er og hvar sem er. Þessari áminningu um
óvissa stöðu í eigin líkama fylgir tilhneiging til einangrunar og innilokunar
sem gerir það að verkum að Didda á bágt með að öðlast sjálfstraust og sjálf-
stæði. Í uppgjöf tekur hún undir með gagnrýnisröddinni, gerir hana að sinni
og innsiglar þar með veika sjálfsmynd sína.
Póstfemínísk orðræða felur gjarnan í sér hvatningu til kvenna um að bæta
sig undir merkjum sjálfsræktar132 en sú orðræða felur einnig í sér þau skila-
boð að konur geti yfirstigið félagslegar hindranir með því einu að „trúa á
sig“ og ítreka þar með áhersluna á einstaklingsbundnar lausnir fremur en
pólitískar.133 Dæmi um póstfemíníska, einstaklingsbundna lausn á kerfis-
lægum/samfélagslegum vanda er orðræðan um að elska líkama sinn (e. love
your body discourse) eða hvatningu um sjálfsást (e. selflove) sem gengur út á að
konur skilgreini sjálfar það sem á að teljast fagurt. Byrðin er lögð á herð-
ar hverrar og einnar konu til þess að finna út úr því í stað þess að leggja
áherslu á að vinna gegn þeirri samfélagsgerð sem setti þessar skorður til
að byrja með og knýja fram altækar, kerfisbundnar breytingar. Með þessari
hvatningu er jafnframt lítið gert úr erfiðleikunum við að hefja sig yfir hina
einsleitu fegurðarímynd; þeir sem ekki geta hrist af sér neikvæða sjálfsmynd
vegna fegurðarkrafna hafa fundið eitthvað nýtt til þess að mistakast í sam-
keppnisdrifnu neyslusamfélagi okkar.134
Fjórða bylgjan virðist þó fela í sér tilraun til þess að yfirstíga þann vanda
í krafti samstöðunnar og sækir þannig innblástur í aðra bylgju femínismans.
Þannig eru Druslugangan og Brjóstabyltingin dæmi um aðgerðir gegn kyn-
ferðisofbeldi sem upphefja fjölbreytilegt útlit kvenna í leiðinni, eins og fram
131 Auður Jónsdóttir, Stjórnlaus lukka, Reykjavík: Mál og menning, 1998, bls. 11.
132 Alda Björk Valdimarsdóttir, „„Ég er ekki þunn!““, bls. 12–13
133 Nicola Rivers, Postfeminism(s) and the arrival of the fourth wave, bls. 62–63.
134 Sama heimild, bls. 63.