Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Blaðsíða 95
GUðRÚn STEInÞÓRSDÓTTIR
94
og sjá sjálfri sér farborða með einstakri útsjónarsemi þrátt fyrir sára fátækt
og engan fjárhagslegan stuðning, hvorki frá hinu opinbera né nánustu fjöl-
skyldu. Sagan dregur vel fram í dagsljósið hvernig samfélagið jaðarsetur fá-
tækt fólk enda er Systa ekki eina efnalitla konan sem er í sviðsljósinu heldur
fá lesendur einnig að kynnast utangarðskonunni Lóló, alkóhólista sem býr
á götunni, auk þess sem þeir fá veður af mansali og þrælahaldi á erlendum
konum.3 Í verkinu stingur Steinunn á fleiri samfélagskýli sem fela í sér út-
skúfun en fátækt því af mikilli næmni lýsir hún líka vanrækslu á börnum og
alvarlegum áhrifum hennar með hliðsjón af sambandi Systu við móður sína.4
Systu megin er afar frumleg bók meðal annars fyrir þær sakir að í sögunni
blandar Steinunn saman tveimur bókmenntagreinum: frásögn og leikriti.
Aðferðin er einkar velheppnuð en í krafti hennar er Systu, jaðarsettri konu,
gefin rödd og ásýnd um leið og lesendum er veitt innsýn í umhverfi fátæks
fólks sem reynir að lifa af við afar bágbornar aðstæður. Í stuttum prósaköflum
fá lesendur aðgang að hugarheimi Systu sem lýsir nokkuð nákvæmlega lífi
sínu og örbirgð auk þess sem hún ræðir uppvöxt sinn og samskipti við föður
sinn sáluga og nískupúkann móðurina. Samræður – eða leiktexti – eru síðan
burðarstólpi verksins og marka framvindu en þar gefst lesendum kostur á að
fá betri sýn á Systu, aðstæður hennar og fólkið sem hún umgengst.
Í þessari grein verður sjónum beint að persónu Systu og gefinn gaumur
að því hvernig hún tekst á við erfiðan veruleika og höfnun jafnt í þröngu
samhengi og víðu. Fjallað verður um persónuna sem flandrara (f. flâneur eða
flâneuse) og þá samfélagslegu útskúfun sem fylgir fátækt. Í því skyni verður
sérstaklega skoðað hvernig sýn flandrarans og upplifun af borgarlífinu eru
nýtt til að afhjúpa rótgróna stéttaskiptingu sem margir í hinum vestræna
heimi eiga erfitt með að horfast í augu við. Þá verður dregið fram hvernig
Steinunn notfærir sér ýmis einkenni hrollvekjunnar og gotneskra sagna til
að varpa ljósi á vanræksluna sem Systa má þola í uppvextinum af hendi móð-
3 Lára Björnsdóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, var meðal fyrir-
lesara á fyrrnefndu málþingi um Systu megin en hún fjallaði um fátækt Systu og
dró vel fram hvernig saga Steinunnar endurspeglar raunveruleika fátækra kvenna á
Íslandi. Sjá Lára Björnsdóttir, „Systa, ein af sterku konunum hennar Steinunnar“,
Málþing, Systa í samastaðarígildinu, Veröld, húsi Vigdísar, 10. mars 2022, sótt 22. maí
2022 af https://livestream.com/hi/systumegin.
4 Ég hélt erindi á málþinginu um Systu megin en þar fjallaði ég um samband Systu
við móður sína. Annar kafli þessarar greinar byggir að hluta til á fyrirlestri mín-
um. Sjá Guðrún Steinþórsdóttir, „Taktlaus og truntuleg Mammfreskja“, Málþing,
Systa í samastaðarígildinu, Veröld, húsi Vigdísar, 10. mars 2022, sótt 22. maí 2022 af
https://livestream.com/hi/systumegin.