Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 102
DÓSAFRÍðA, FLAnDRARI OG HRjÁð DÓTTIR
101
Martin, aðalpersóna Jójó (2011), kýs að loka á foreldra sína eftir að þau
bregðast honum þegar þau neita að horfast í augu við að honum hafi verið
nauðgað, þá barni að aldri, þrátt fyrir ótvíræð sönnunargögn. Í sömu bók
– og í framhaldsbókinni Fyrir Lísu (2012) – segir einnig frá öðrum börn-
um sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi af feðrum sínum en engan
stuðning fengið frá mæðrunum. Meginumfjöllunarefni Sólskinshests (2005)
er síðan vanræksla á systkinunum Lillu og Mumma en af tveimur óhæfum
uppalendum stendur faðir þeirra sig þó betur í að annast þau.23
Þótt form og efnistök séu gagnólík má segja að í Systu megin taki Stein-
unn sumpart upp þráðinn úr Sólskinshesti því þar fjallar hún einnig gaum-
gæfilega um vanrækslu á systkinum og áhrif hennar. Í leiksögunni er það
þó aðeins móðirin sem ekki stendur sig sem uppalandi. Foreldrarnir mynda
raunar fullkomnar andstæður; mamman er köld og ástlaus en pabbinn um-
hyggjusamur, blíður og hlýr. Þegar sagan gerist er faðirinn löngu látinn en
móðirin, sem er vel stödd fjárhagslega, er, eins og í uppeldi Systu, fremur
sinnulaus um líf og velferð dóttur sinnar sem komin er á fertugsaldurinn.
Það er í einum samræðukafla sem mamman kemur í heimsókn til dóttur
sinnar með jólaglaðning á aðfangadag, annars kynnast lesendur henni ein-
göngu í gegnum upprifjun Systu og samtöl hennar við Brósa bróður. Þótt
móðirin eigi að heita aukapersóna í sögunni er nærvera hennar yfirþyrmandi
og greinilegt að áhrif hennar á líf dótturinnar eru umtalsverð og geta því að
hluta skýrt stöðu Systu í því samfélagi sem hún lifir og hrærist í.
Til að útskýra betur uppvöxt Systu og Brósa er vert að rifja upp helstu
birtingarmyndir vanrækslunnar á þeim. Faðir systkinanna var sjómaður en
þegar hann var í landi var hann verndari sem lét sér annt um börnin, sá til
þess að þau fengju nóg að borða, keypti á þau föt, las fyrir þau bókmenntir
og gaf þeim góðar gjafir á jólunum. Hann lést þegar Systa var 14 ára en Brósi
12 ára. Fráfall hans var þeim harmdauði því ólíkt honum var móðir þeirra
algjör nirfill sem vanrækti þau á ýmsan máta. Þegar systkinin voru að alast
upp tímdi hún til að mynda ekki að kaupa fatnað á þau og sá á eftir hverjum
bita sem þau létu ofan í sig þó að hún hefði nóg á milli handanna. Samkvæmt
23 Sbr. til dæmis Alda Björk Valdimarsdóttir, „„Á tímum VARAnLEGRA ÁSTAR-
SORGA“. Ástin, dauðinn og lesandinn í þremur skáldsögum eftir Steinunni Sig-
urðardóttur“, Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur, Reykja-
vík: Háskólaútgáfan, Bókmennta- og listfræðastofnun, 2011, bls. 135–164; Dagný
Kristjánsdóttir og Katrín María Víðisdóttir, „Í frásagnarspeglasalnum“, bls. 113–
134; Dagný Kristjánsdóttir, „Barnaleikur. Um tráma, minni og gleymsku í Jójó eftir
Steinunni Sigurðardóttur“, Skírnir vor/2013, bls. 178–195 og Guðrún Steinþórs-
dóttir, „Frá Hugástum til Systu megin“.