Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Page 108
DÓSAFRÍðA, FLAnDRARI OG HRjÁð DÓTTIR
107
minnir á draugahús sem lesendur kannast við bæði úr hrollvekjum og got-
neskum sögum.39 Eins og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir hefur bent á þá
fjalla „sögur um reimleikahús […] nánast alltaf um eitthvað úr fortíðinni
sem ásækir íbúa hússins“40 enda er heimilið staður minninga. Leyndarmál
Fjólugötunnar – eða draugar fortíðarinnar – hverfast vitaskuld um fjöl-
skylduhryllinginn; kúgun móðurinnar og valdbeitingu. Það er því skiljanlegt
að Systa forðist heimsóknir þangað; hún vill ekki ýfa upp sárar minningar og
endurupplifa alla þá vanlíðun sem þeim fylgir.
Kjallaraíbúð Systu er fullkomin andstæða æskuheimilisins með tilliti til
íburðar og þæginda því þótt hún hafi lagt sig fram við að gera hana vistlega
er hún afar bágborin og laus við öll nútímaþægindi. Hún segist ekki vilja
kalla samastaðarígildi sitt „holu eða helli eða líkkistu til að gera ekki lítið
úr því sem það þó er“ (55) en engu að síður endurspegla slíkar nafngiftir
óþægilega vel híbýli hennar og innlokunarkenndina sem hlýtur að skapast í
rými með lágri lofthæð og óopnanlegum glugga. Viðurnefnin minna einn-
ig einum þræði á stöðu persónunnar í samfélaginu; hún býr við frumstæðar
aðstæður og tilheyrir lægstu stéttinni sem samfélagið hefur sameinast um að
fela undir yfirborðinu (eða jafnvel ganga fram af dauðri) með skorti á sam-
kennd og bjargráðum.41 Þótt samastaður Systu sé vart fólki bjóðandi kýs hún
hann fram yfir að flytja aftur í hryllingshús bernskunnar, ætti hún þess kost,
til að viðhalda sjálfstæði sínu því eins og hún segir sjálf: „Það væri miklu
skárra að mega vera myrtur eins og venjulegt lík, í eitt skipti fyrir öll, heldur
en að flytja á Fjólugötuna.“ (147, leturbreyting mín) Orð Systu magna hryll-
inginn sem einkennir híbýli móðurinnar en í anda gotneskrar hugsunar má
segja að þar leynist hætturnar við hvert fótmál, gæti fólk ekki að sér, auk þess
sem dauðinn og missirinn séu þar miðlæg.42 Tíminn á Fjólugötunni stendur
39 Draugahúsið er eitt algengasta minni hrollvekja og gotneskra sagna sbr. til dæmis
David Punter og Glennis Byron, The Gothic, Malden, Oxford og Victoria: Blackwell
Publishing, 2004, bls. 259–262. Um skelfilegan stað í hryllingsmyndum sjá til dæmis
Carol Clover, „Karlar, konur og keðjusagir. Kyngervi í nútíma hryllingsmyndum“,
þýðing Úlfhildur Dagsdóttir, Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstjóri Guðni Elísson,
Reykjavík: Forlagið, 2003, bls. 357–394, hér bls. 365–366.
40 Sigrún Margrét Guðmundsdóttir, Húsið og heilinn. Um virkni reimleikahússins í The
Shining og þremur íslenskum hrollvekjum, ritgerð lögð fram til doktorsprófs, Íslensku-
og menningardeild Háskóla Íslands, 2020, bls. 8.
41 Í þessu samhengi má benda á samsvörun Systu megin við suður-kóresku kvikmyndina
Parasite (2019, leikstjóri Bong joon-Ho). Myndin fjallar um bláfátæka fjölskyldu í
Seoul en stéttarstöðu hennar er gerð mjög augljós myndræn skil með því að beina
sjónum áhorfenda að kjallaraíbúðinni sem hún býr í.
42 Hér er vitnað til orða Guðna Elíssonar en samkvæmt honum snýst gotnesk hugsun