Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 110
DÓSAFRÍðA, FLAnDRARI OG HRjÁð DÓTTIR
109
fræðingurinn Cathy Caruth hefur bent á að tráma rjúfi sögu og tíma að því
leyti að einstaklingurinn meðtaki ekki trámatíska atburðinn til fulls þegar
hann á sér stað en áfallið snúi síðan gjarnan aftur og ásæki hann síðar meir
í hugsunum, ímyndunum, draumum og óvelkomnum endurlitum.48 Þessi
endurtekning á ósjálfráðum minningum er eðlileg aðferð til að bregðast við
skelfilegri reynslu og um leið aðferð til að umbreyta tilfinningum tengdum
trámanu og umbera minningar um það. Flestir sem hafa upplifað tráma eru
enda á einn eða annan hátt færir um að halda lífinu áfram án þess að láta
minningarnar af áfallinu ná tökum á sér. Það merkir þó ekki að trámatísku
atburðirnir hafi engin áhrif á þá því eftir að hafa upplifað áfall verða allflestir
uppteknir af atburðinum og því eðlilegt að þeir leiði hugann reglulega að
reynslunni og/eða hafi þörf fyrir að tala um hana.49
Slíkt á vel við um Systu því vanrækslan í bernsku er tráma í lífi hennar
og þótt henni hafi tekist að skapa sér líf fjarri móðurinni og lifa með áfallinu
benda minningarnar til þess að mammfreskjan sé enn að valda henni streitu
og að hún sé ekki fullkomlega sloppin undan ægivaldi hennar. Raunar er
vald móðurinnar og sterk nærvera bókstaflega raungerð í styttu af henni
sem er í eigu Systu. Verkið minnir á aðrar styttur af stjórnendum sem eiga
það sameiginlegt að vera tákn fyrir vald viðkomandi.50 Í lýsingu á styttunni
segir að hún sé „af kvenskörungi sem styður hönd á mjöðm og stígur ölduna
álút. Skátalega klædd, í jakka með belti.“ (50) Og því er lýst að áhrif verksins
séu bæði „sósíalrealísk og karlaleg.“ (50) Lýsingin markast af ísmeygilegri
íróníu því rétt eins og móðirin hafa ýmsir stjórnendur, sem gert hafa út á
bræðralag, samheldni og baráttu þeirra sem minna mega sín, reynst vera
hinir verstu harðstjórar.51
48 Cathy Caruth, „Trauma and Experience. Introduction“, Trauma. Explorations in Me-
mory, ritstjóri Cathy Caruth, Baltimore og London: The jones Hopkins University
Press, 1995, bls. 3–12, hér bls. 4–5.
49 Bessel A. van der Kolk og Alexander C. McFarlane, „The Black Hole of Trauma“,
Traumatic Stress. The Effects of Overwhelming Experience on Mind, Body, and Society,
ritstjórar Bessel A. van der Kolk, Alexander C. McFarlane og Lars Weisaeth, 1996,
bls. 3–23, hér bls. 5–15.
50 Það er reyndar skemmtilega írónískt að styttunni á móðurinni er á einum tíma-
punkti stillt upp við hlið líkneskja af jesú á krossinum annars vegar og skellihlæjandi
Búdda hins vegar en um leið er sá samsláttur alvarlegur því hann dregur vitaskuld
fram hversu stórt hlutverk móðirin leikur í lífi dóttur sinnar og minnir á að þegar allt
kemur til alls er hún skapari barna sinna. Sjá Steinunn Sigurðardóttir, Systu megin,
bls. 164.
51 Í þessu samhengi má til dæmis minnast skátaforingjans Robert Baden-Powell sem
lagði grunninn að skátahreyfingunni um heim allan en var síðar sakaður um rasisma