Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Qupperneq 113
GUðRÚn STEInÞÓRSDÓTTIR
112
Hlutverk Systu
Öll veröldin er leiksvið,
og aðeins leikarar, hver karl og kona,
þau fara og koma á sínum setta tíma,
og sérhver breytir oft um gervi og leikur
sjö þætti sinnar eigin ævi.58
Úr Sem yður þóknast eftir William Shakespeare
Það er algengt að líkja veröldinni við leiksvið og lífinu við leikrit þar sem
hver einstaklingur gegnir tilteknu hlutverki. Hlutverk hvers og eins geta þó
verið margbreytileg og ólík eftir tíma og aðstæðum en innan félagsfræðinn-
ar hefur raunar verið sett fram sú kenning að einstaklingurinn hafi margar
og ólíkar sjálfsmyndir sem mótist af því hvaða hlutverk hann leikur hverju
sinni. Sjálfsmyndin sé nánar tiltekið tengd ákveðnum gerðum af hlutverkum
og hugmyndum fólks um hvað felist í þeim eins og til dæmis hvernig eigi að
haga sér í hlutverkunum vinkona, systir eða dósasafnari; í hverju hlutverki
getur birst ólík sjálfsmynd. Samkvæmt félagsfræðingnum Sheldon Stryker
móta ólíkar sjálfsmyndir einstaklingsins sjálf hans. Hann segir að sjálfið sé
mikilvægur þáttur í öllum gjörðum manneskjunnar og samskiptum en hann
telur að það verði til í samskiptum við aðra vegna þess að viðbrögð þeirra
hafi áhrif á mótun þess. Samfélagið á þar með þátt í að skapa sjálfið sem
hefur síðan áhrif á félagslega hegðun einstaklings.59
Þetta er nefnt vegna þess að líkingar tengdar leiklist og lífinu eru í for-
grunni í Systu megin. Það sést best af því að leiksagan er að hluta til byggð
upp sem leikrit, henni fylgir hlutverkaskrá og oft eru gefnar nákvæmar lýs-
ingar á aðstæðum og persónum í samræðuköflunum þannig að lesendur vita
meira um persónur en þær hver um aðra.60 Mestu máli skiptir þó að persónur
eru sífellt að leika tiltekin hlutverk; sem draga dám af aðstæðum og félags-
58 William Shakespeare, Sem yður þóknast, Helgi Hálfdanarson þýddi, Ritsafn 7 bindi,
Reykjavík: Mál og menning, 1991, bls. 11–95, hér bls. 44.
59 Sheldon Stryker, „Identity Theory and Personality Theory. Mutal Relevance“, Jo-
urnal of Personality 75: 6/2007, bls. 1083–1100, hér bls. 1088–1092.
60 Þess má geta að nöfn persóna í nánustu fjölskyldu Systu vísa til hlutverks þeirra inn-
an fjölskyldunnar; systkinin ganga undir nöfnunum Systa og Brósi (systir og bróðir)
en foreldrarnir Faðir/Pabbi og Mamma, það er að segja ef frá eru talin fyrrnefnd
viðurnefni sem systkinin hafa um móður sína. Móðirin er reyndar eina persónan
í fjölskyldunni sem er nafngreind, hún heitir Gunnvör og er það vel við hæfi því
nafnið merkir „vörn orrustunnar“. Sjá Guðrún Kvaran, Nöfn Íslendinga, Reykjavík:
Forlagið, 2011.