Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Síða 114
DÓSAFRÍðA, FLAnDRARI OG HRjÁð DÓTTIR
113
legum samskiptum. Systu er til dæmis mikið í mun að fylgja eftir ákveðnum
samfélagslegum viðmiðum; bæði hvað varðar samskipti við sína nánustu og
ókunnuga. Sem dósasafnari reynir hún til að mynda að gera sig ósýnilega og
ögra ekki umhverfinu en þegar hún á í samskiptum við Lóló gengst hún upp
í hlutverki vinkonunnar; er til staðar og hjálpar eftir bestu getu.
Ýmsir þættir geta haft áhrif á sjálfsmyndir einstaklinga – eða hvaða hlut-
verk þeir leika í tilteknum aðstæðum – en þar á meðal getur kyn þeirra skipt
máli. Það er að vísu misjafnt eftir hverjum og einum, ólíkum hlutverkum,
tímabilum og aðstæðum hversu stóran þátt kynið skipar í sjálfsmyndinni.
Í rannsóknum á sjálfsævisögulegum frásögnum karla og kvenna hefur þó
komið fram að konur skilgreini sig gjarnan frekar út frá öðru fólki á meðan
að karlar líti á sjálfa sig sem einstaka og engum háða.61 Þessi munur kemur
glögglega fram í fari systkinanna í Systu megin sem mynda reyndar and-
stæður af ýmsu tagi.
Systa gekk litla bróður sínum, Brósa, í foreldrastað við fráfall föður þeirra
og þótt bæði séu orðin fullorðin, þegar leiksagan gerist, er hún enn í um-
önnunarhlutverki gagnvart honum. Þannig er því til að mynda lýst að Systa
huggar bróður sinn eins og lítið barn eftir rifrildi hans við ótryggan kær-
asta sem gengur í skrokk á honum. Hún býr að sárum Brósa, gefur honum
verkjalyf og gengur úr rúmi fyrir hann. Systa er fullkomin andstæða móður
sinnar enda leggur hún eigin þarfir til hliðar, er lítillát, auðmjúk og tillitsöm
og býr því yfir öllum þeim kostum sem einkenna goðsögnina um hina fórn-
fúsu móður; sem margar konur hafa í gegnum tíðina haft sem forskrift af því
hvernig þeim beri að haga sér í móðurhlutverkinu.62 Systa er sem sagt mótuð
af samfélags- og menningarlegum hugmyndum um móðurhlutverkið þótt
hún hafi valið sér óhefðbundinn lífsstíl og átt mömmu sem hafnaði börnum
sínum.
Brósi er betur settur en Systa þó að hann eigi í ýmsum persónulegum
vandræðum. Í samræðum þeirra á milli skammast hann sín ýmist fyrir hana
– ekki síst í návist kærastans – eða lætur sem hann vilji hjálpa henni að skapa
sér betra líf, eins og eftirfarandi ummæli vitna um:
61 Robyn Fivush og janine P. Buckner, „Creating Gender and Identity Through Auto-
biographical narratives“, Autobiographical Memory and the Construction of a Narrative
Self. Developmental and Cultural Perspectives, 2003, bls. 149–167, hér bls. 150–151.
62 Sbr. Dagný Kristjánsdóttir, Frelsi og öryggi. Um sögur Svövu Jakobsdóttur og íslenska
kvennahreyfingu, Reykjavík: Rannsóknastofnun í bókmenntafræði við Háskóla Ís-
lands, 1978, bls. 36.