Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 131
ARnFRÍðUR GUðMUnDSDóTTIR
130
menn sína heima (1Kor 14.35).38 Þessi orð og önnur í sama dúr hafa
um aldir verið notuð gegn konum en snemma fóru karlar að gera tilkall
til þess að stjórna, ekki bara starfi einstakra safnaða heldur einnig túlkun
boðskaparins. Af þessum sökum þótti femínískum guðfræðingum mikilvægt
að benda á konur sem ekki sættu sig við ofríki karla og gerðu kröfur um að
raddir þeirra fengju að heyrast.
Femínískir biblíufræðingar
Konur í hópi gamla- og nýjatestamentisfræðinga höfðu mikil áhrif á þróun
femínískrar guðfræði með rannsóknum sínum á bókum Biblíunnar á fyrstu
áratugum hennar. Í ákveðnum skilningi tóku þær upp þráðinn frá Elisa-
beth Cady Stanton og samstarfskonum hennar sem gáfu út Kvennabiblíuna39
í tveimur hlutum á árunum 1895 og 1898.40 Kvennabiblían er skýringarrit
um biblíutexta sem ýmist fjalla um konur eða sniðganga konur og reynslu
þeirra. Það sem greinir Kvennabiblíu Stanton frá femínískum gamla- og
nýjatestamentisritum sem komu út á 8. og 9. áratug 20. aldar eru þær fræði-
legu forsendur sem voru til staðar í síðara tilvikinu, en hvorki Stanton né
samstarfskonur hennar höfðu notið háskólamenntunar á sviði biblíufræða
og höfðu takmarkaða þekkingu á frummálunum, hebresku og grísku. En
þó að Kvennabiblían stæðist ekki þær fræðilegu kröfur sem gerðar voru til
skýringarrita á síðari hluta 20. aldar, gegndi hún mikilsverðu hlutverki í
kvennabaráttunni í lok þeirrar 19. með því að gagnrýna hvernig andstæð-
ingar aukinna réttinda kvenna notuðu texta Biblíunnar í þeim tilgangi að
þagga niður í konum.41
Elisabeth Schüssler Fiorenza (1938) var brautryðjandi á vettvangi femín-
38 Jouette M. Bassler, „1 Corinthians“, The Women‘s Bible Commentary, bls. 321–329,
hér 327–328.
39 Titillinn á ensku er Woman‘s Bible, sem mjög snemma var farið að þýða sem Kvenna-
biblían, eins og sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir gerir í bók sinni Vinátta Guðs. Kvenna-
guðfræði, sem fyrst kom út árið 1994 (Reykjavík: Kvennakirkjan, 1994, bls. 28–30).
40 Elizabeth Cady Stanton, and the Revising Committee, The Woman‘s Bible. Part I &
Part II, Seattle: Coalition Task Force on Women and Religion, 1974.
41 Það eru ýmis líkindi með Kvennabiblíunni og fyrirlestri Bríetar Bjarnhéðinsdóttur,
sem var fluttur 1887, eða átta árum áður en fyrra hefti Kvennabiblíunnar kom út en
í báðum tilvikum er verið að gagnrýna notkun á biblíutextum í þeim tilgangi að
koma í veg fyrir að konur fengju aukin réttindi, til jafns við karla. Sjá: Arnfríður
Guðmundsdóttir, „Bríet og Biblían. Um biblíutúlkun í upphafi íslenskrar kvenna-
baráttu“, Kvennabarátta og kristin trú. Greinasafn, ritstj. Arnfríður Guðmundsdóttir
og Kristín Ástgeirsdóttir, Reykjavík: JpV, 2009, bls. 165–204.