Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 138
FITJAð Upp Á nýTT
137
góða hugmynd um það sem Johnson leitast við að gera í bók sinni, nefnilega
að sýna fram á áhrifamátt þeirra tákna eða myndlíkinga sem við notum til að
túlka leyndardóm (e. mystery) Guðs. Þennan leyndardóm þekkjum við aðeins
í gegnum opinberunina en fáum aldrei fyllilega náð utan um hann eða skilið
til fulls. Þess vegna skipti það máli hvaða táknmyndir við notum, því þær
hafi ekki bara áhrif á guðsmyndina heldur líka sjálfsmynd okkar. Með því að
nota alfarið karlkynsmyndir af Guði, segir Johnson, hvort sem það er gert í
helgihaldi, í prédikun, eða fræðslustarfi innan kirkjunnar, séu skilaboðin þau
að Guð sé karl eða að minnsta kosti meira eins og karl heldur en kona. Í öllu
falli gefi það til kynna að það sé meira við hæfi að nota karlkyns en kvenkyns
hugtök um Guð. Einhliða notkun á karlkyns guðsmyndum styðji þannig við
hugmyndakerfi feðraveldisins og grafi undan kjarna kristins mannskilnings,
að við séum öll jöfn frammi fyrir Guði. Með því að nota kvenmyndir um
Guð sé ekki aðeins verið að ögra tilhneigingunni til að taka ákveðnar myndir
af Guði bókstaflega, heldur einnig forréttindum karla á kostnað kvenna.60
Helstu rök Johnson fyrir því að nota nýjar myndir og nýtt gildismat
byggt á reynslu kvenna, eru sótt í fyrri sköpunarsöguna í fyrstu Mósebók
þar sem segir að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd (l. Imago Dei),
skapað þau karl og konu (1Mós 1.27). Ef konur eru skapaðar í mynd Guðs,
segir hún, hlýtur að vera eðlilegt að nota kvenmyndir þegar talað er um
Guð.61 Þótt leyndardómur Guðs sé vissulega hvorki karlkyns né kvenkyns
(og hvergi í kristinni trúarhefð er því haldið fram að Guð sé annað hvort),
er það skoðun Johnson að það sé mikilvægt að við notum myndir og líkingar
sem við skiljum og byggja á reynslu kvenna og karla. En einmitt vegna þess
að bæði karlinn og konan bera mynd Guðs (eru Imago Dei), séu bæði jafn fær
um að benda áfram (eins og eðli allra tákna er að vísa út fyrir sig á það sem
þau standa fyrir, eða tákna) á hinn guðlega leyndardóm sem þau eiga upphaf
sitt í. Raunin sé sú að bæði kven- og karlmyndir séu nauðsynlegar til að talið
um Guð (e. the speech about God) verði nær settu marki, þar sem allt tal um
leyndardóm Guðs geti í raun aldrei verið annað en ófullkomið.62 Johnson
notar orðasambandið „She Who Is“ um einingu Guðs, sem vísar í aðra
Mósebók þar sem Guð kynnir sig fyrir Móse með því að segja: „Ég er sá sem
ég er“ (2Mós 3.14). Hún leitar síðan í spekihefðina til að finna líkingar fyrir
persónur þrenningarinnar. Spekin gegnir veigamiklu hlutverki bæði í Gamla
60 Sama heimild, bls. 4–5.
61 Sama heimild, bls. 54.
62 Sama heimild, bls. 55.