Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Síða 148
GRæNN FEMÍNISMI
147
og þjóðfélagslega undirokuðum hópum af ýmsu tagi ekki síður en sjálfri
náttúrunni, öllum dýrategundum hennar, gróðri, jarðvegi, jarðefnum, vatni
og lofti. Vistfemínismi er þannig sá meiður femínískrar hugmyndafræði sem
lítur á umhverfisvernd og tengsl kvenna við náttúruna sem grundvallaratriði
í allri greiningu og framkvæmd á sviði jafnréttis-, kvenfrelsis- og umhverfis-
mála. Vistfemínískir hugsuðir horfa út frá hugtakinu kyngervi í allri rýni og
greiningu á tengslum manns og náttúru.
Vistfemínísk greining gengur þannig út á að rannsaka tengsl kvenna
og náttúru eins og þau birtast á sviði menningar, efnahags, trúarbragða,
stjórnmála, bókmennta og tákngerva af ýmsu tagi, og fjallar um hliðstæður
í kúgun náttúru og kúgun kvenna. Konum sé, líkt og náttúrunni, skipað í
óæðra sæti í samfélagsskipan þar sem karllæg gildi séu ráðandi og karlar fari
með öll eða nær öll völd og samfélagið mótist allt af því. Í þessu samhengi
leggja vistfemínistar áherslu á að virða beri bæði konur og náttúru og því
skuli samþætta baráttu fyrir bættri stöðu og réttindum kvenna og umhverfis-
vernd enda stuðli niðurstaðan í senn að jafnræði milli kynjanna og vernd
umhverfis.24
Vistfemínísk kenning byggir þannig á þeim grundvallarskilningi að
kapítalismi endurspegli og stýrist fyrst og fremst af feðrahyggju og feðra-
veldisgildum. Þessi hugmynd felur í sér að kapítalismi hafi ekki gagnast
konum til jafns við karla heldur skapað skaðlega gjá milli náttúru og menn-
ingar.25 Töldu ýmsar af vestrænum talskonum vistfemínisma á áttunda og
níunda áratug síðustu aldar að þessi gjá yrði ekki brúuð nema fyrir tilstuðl-
an kvenlegs innsæis gagnvart viðgangi lífsins og heildrænnar þekkingar
á ferlum náttúrunnar. Síðan þá hafa allmargar vistfemínískar fræðikonur
tekið annan pól í hæðina og haldið því fram að það sé ekki líffræðilegt
kyn kvenna, móðurhlutverkið eða nein kvenlæg eðlisgerð, sem tengi konur
náttúrunni umfram karla heldur sé það vegna þess að konur og náttúra búi
við hliðstæða kúgun af völdum sömu karldrifnu kraftanna sem ráði lögum
og lofum, bæði í mannlegu samfélagi og í ríkjandi afstöðu til náttúrunnar
24 Sjá til dæmis Sherilyn MacGregor, Beyond mothering Earth. Ecological Citizenship and
the Politics of Care, Vancouver: UBC Press, 2006; Carolyn Merchant, Radical Ecology.
The Search for a Livable World, New York: Routledge, 2005, 2. útgáfa, bls. 193–222;
Patricia Glazebrook, „Karen Warren‘s Ecofeminism“, Ethics & the Environment 7: 2/
september 2002, bls. 12–26, doi:10.2979/ETE.2002.7.2.12; Karen J. Warren, Eco-
feminist Philosophy. A Western Perspective on What It Is and Why It Matters, lanham,
Maryland: Roman og littlefield Publishers, 2000.
25 Johanna Oksala, „Feminism, Capitalism, and Ecology“, Hypatia 33: 2/2018, bls.
216–234.