Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Síða 156
GRæNN FEMÍNISMI
155
förum sem karlar við völd höfðu komið þeim í. Í stað meginstraumsviðhorfa
dæmigerðrar feðraveldisorðræðu komu kvenfrelsisraddir inn í myndina með
áherslu á betri heim fyrir konur og börn, jafnt og karla, en forsenda fyrir
slíkum heimi væri meðal annars náttúru- og umhverfisvernd.46
Það var hins vegar í áðurnefndum skrifum Sigrúnar Helgadóttur sem vist-
femínismi var kynntur til sögu hér á landi, í greininni sem hún skrifaði í Veru
árið 1991 undir yfirskriftinni „Kvenlæg vistfræði“. Þar nefnir Sigrún að hún
noti þessa þýðingu á enska hugtakinu ecofeminism en fleiri tillögur að heiti á
íslensku mættu gjarnan koma fram. Hún kallar þar eftir hugarfarsbreytingu
innan vistfræðinnar sem vísindagreinar því fæstir umhverfisfræðinga skildu
eða viðurkenndu að vistfræðin þarfnaðist sjónarmiða kvenna í stað þess að
stýrast af karllægu vísindasamfélaginu einvörðungu eins og raunin hafði
verið fram að þessu. Hafa bæri í huga að stöðugleiki vistkerfis byggist á fjöl-
breytni, skrifar Sigrún einnig í því samhengi að í rýrðu vistkerfi yrði dýralíf
og gróðurfar mun fábreyttara og allt vistkerfið viðkvæmara til dæmis fyrir
sjúkdómum og öðrum plágum heldur en í hinu upphaflega fjölbreytta vist-
kerfi. Skerðing á fjölbreytni vistkerfis af mannavöldum væri þannig hættuleg
og það sama mætti segja um mannlífið í tilvikum þegar litið væri á menn sem
vélar og smekkur þeirra og menning gerð einsleit í gegnum fjölþjóðaneyslu-
kerfi. Þannig væru samfélög og náttúra gerð fátækari varðandi fjölbreytni
til hagsbóta fyrir markaðsþjóðfélagið en tækni og iðnvæðing hefði meira og
minna breytt nær öllum þjóðum. Þessu vildu fylgjendur kvenlægrar vistfræði
breyta með því að leggja áherslu á fjölbreytni í menningu kvenna því í fjöl-
breytni fælist styrkur en að sama skapi bæri að vinna gegn því sem sundri
konum, svo sem stéttaskiptingu, forréttindum, kynja- og kynþáttamisrétti.
Fylgjendur kvenlægrar vistfræði, skrifar Sigrún áfram, hafi bent á að tengsl
kvenna bæði við menningu og náttúru veiti þeim tækifæri til að skapa menn-
ingu og stjórnkerfi sem sameini sálrænt innsæi, rökræna þekkingu, vísindi
og þjóðmenningu. Það sé hlutverk kvenna að byggja upp þjóðfélag þar sem
náttúran fái að móta menninguna og skilin á milli manns og náttúru eru af-
máð.47 allt á jörðinni byggir á innbyrðissamhengi og það er kjarnahugmynd
kvenlægrar vistfræði, eða svo áfram sé vitnað í orð Sigrúnar Helgadóttur:
46 Sjá um hugmyndafræði Kvennaframboðsins í Reykjavík og síðan Kvennalistans:
Kristín Jónsdóttir, „Hlustaðu á þína innri rödd“. Kvennaframboðið í Reykjavík og
kvennalisti 1982–1987.
47 Sigrún Helgadóttir, „Kvenlæg vistfræði“, bls. 8–9. Í grein sinni segist Sigrún styðjast
við ritið Healing the Wound. The Promise of Ecofeminism, ritstjóri Judith Plant, Phila-
delphia: New Society Publishers, 1989, einkum greinar í ritinu eftir Susan Griffin,
„The Ecology of Feminism“ og Ynestra King, „Feminism of Ecology“.