Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Síða 158
GRæNN FEMÍNISMI
157
Gætir áhrifa vistfemínisma nú í umhverfisstefnu
íslenskra stjórnvalda?
Hér er komið að því að snúa sér að seinni hluta spurningar þessarar greinar,
það er um það hvort gæti einhverra áhrifa vistfemínískra hugmynda í um-
hverfisstefnu stjórnmálaflokka og stjórnvalda á Íslandi nú á tímum, nánar
tiltekið þegar kemur að stefnu í umhverfismálum.
Þessum spurningum má svara játandi í því tilliti að kynjuð markmið í gerð
og innihaldi aðgerðaáætlana fylgdu í kjölfar jafnréttissinnaðri viðhorfa al-
mennt á tíunda áratug síðustu aldar og fyrstu áratugum þessarar, í krafti fyrri
baráttu fyrir kynjajafnrétti og bættum mannréttindum almennt hérlendis.
Þetta snertir sögu umhverfishyggju í hugmynd og framkvæmd, og þá líka
frá vistfemínísku sjónahorni. Árið 2012 gaf umhverfisráðuneytið út skýrslu
um „kynjaáhrif“ loftslagsmála, þar sem rýnt var með kynjagleraugunum í
aðgerðaáætlun þáverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum.52 Þetta var hluti af
innleiðingu kynjaðar hagstjórnar sem þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og
Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, setti sér að beita við fjárlagagerð og
efnahagsstjórn, enda gætu ólík áhrif fjárlaga á kynin og stöðu þeirra leitt til
betri stjórnarhátta og skiptingu tekna. afleiða af þessu var að huga að hvort
samþætta ætti einnig kynjasjónarmið stefnu í loftslagsmálum og var gerð
skýrsla um málið sem kom út í október 2012. Skýrslan var þáttur í verkefni
umhverfis- og auðlindaráðuneytis í kynjaðri fjárlagagerð, þar sem farið var
yfir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem samþykktar voru
í október 2010. Í þessari áfangaskýrslu, sem fól í sér greiningu á kynjaáhrif-
um loftslagsmála, var sjónum beint að því hvort bæði kynin komi að því að
móta stefnu og taka ákvarðanir um loftslagsmál. Niðurstöður sýndu, eins og
fram kemur einnig í frétt á vefsíðu Stjórnarráðsins um meginatriði í niður-
stöðum skýrslunnar, að konur nota vistvænni samgöngumáta en karlar og
hafa almennt vistvænni lífsstíl en þeir. Vistspor (e. ecological footprint) kvenna
er minna en karla sem hlýst af því að lífsstíll kvenna er mun umhverfisvænni
en karla. Enn fremur er bent á að þær aðgerðir sem boðaðar eru í áætluninni
skapi einkum störf á karllægum sviðum svo sem í landbúnaði og við ýmsa
véla– og tæknivinnu. Þannig sé kynjaslagsíða í framkvæmdaáætluninni í stað
þess að fylgt sé kynjaðri umhverfisstefnu, það er tekið mið af þörfum kvenna
52 Loftslagsmál og kynjaáhrif þeirra. Áfangaskýrsla 1, Reykjavík: Umhverfisráðuneyti, 15.
ágúst 2012, sótt 19. júní 2022 af https://www.stjornarradid.is/media/um hverfis radu-
neyti-media/media/PDF_skrar/14_UMH_KHF_afangaskyrsla1_2012.pdf.