Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Side 179
HóLMFRÍðuR GARðARSDóTTIR
178
Hvorki hlýðnar né hljóðlátar
Frá því argentínska búsáhaldabyltingin stóð sem hæst eru liðnir tveir ára-
tugir og réttindabarátta kvenna heldur áfram. Hún hverfist áfram um
ákvörðunarrétt yfir eigin örlögum og einskorðast ekki lengur eingöngu við
lögbundin réttindi heldur einnig frið- og lífhelgi. Aðgerðarhópurinn Ekki
einni [konu] færra, eða #NiunaMenos, hefur verið áberandi í baráttunni
víða um álfuna.62 um er að ræða öfluga fjöldahreyfingu sem setur réttinda-
mál kvenna og kynbundið ofbeldi á oddinn.63 Þær komu fyrst fram á sjónar-
sviðið í Argentínu árið 2015 þegar lík hinnar 14 ára gömlu Chiara Paez
fannst grafið undir stofugólfinu heima hjá kærasta hennar. Hann hafði barið
hana til óbóta þegar hann komst að því að hún væri ófrísk. Mál hennar varð
í senn kveikja og dropinn sem fyllti mælinn.64 Ári síðar varð mál hinnar 16
ára gömlu Lucíu Pérez, frá borginni Mar del Plata (sunnan Buenos Aires),
sem dó af sárum sínum í kjölfar hópnauðgunar og svívirðilegs kynferðis-
legs ofbeldis, til þess að argentínskar konur efndu til allsherjarverkfalls og
komu saman á torginu fyrir framan þinghúsið í miðborg Buenos Aires svo
hundruðum þúsunda skipti til að mótmæla kvennamorðum (s. feminicidio).65
Vakningin fór sem eldur í sinu um álfuna og konur tóku höndum saman og
mótmæltu aðgerðarleysi yfirvalda og því að dauðsföll kvenna væru sjaldan
rannsökuð, hvað þá að morðingjarnir væru sóttir til saka. Sé það gert – eins
og í máli Lucíu Pérez – eru sakamennirnir ósjaldan látnir lausir vegna dug-
leysis dómara, í tilfelli Pérez voru dómararnir þrír karlar sem báru fyrir sig
skort á vitnum og/eða sönnunargögnum.
tica (1983-2021):¿modelo aspiracional o realidad institucional?“, Revista SAAP,
15: 2/ 2021, án bls. Sótt þann 28. ágúst 2022 af http://www.scielo.org.ar/scielo.
php?script=sci_arttext&pid=S1853-19702021000200287.
62 Jean-Marie Chenou og Carolina Cepeda-Másmela, „#NiunaMenos: Data Activism
From the Global South“, Television & New Media, 20: 1/2019, án bls. tals.
63 Hreyfingin kom fyrst fram á sjónarsviðið í borginni Ciudad Juárez í Mexíkó árið
1995. Það var ljóðskáldið og aðgerðarsinninn Susana Chávez sem bjó til slagorðið
„Ekki fleiri [konur] myrtar“ (s. „Ni una muerta más“). Chávez var drepin árið 2011.
64 Sjá umfjölun Analíu Lorente „´Ni una menos´: Chiara Páez, la adolescente embara-
zada de 14 años cuyo brutal asesinato dio origen al movimiento contra la violencia
machista“, BBC News Mundo, 3. júní 2020. Sótt þann 28. ágúst 2022 af https://www.
bbc.com/mundo/noticias-52900596.
65 Sjá umfjöllun um hreyfiafl ofbeldis á „Argentine women strike after fatal rape of
teenager“, BBC News, 20. október 2016. Sótt þann 28. ágúst 2022 af https://www.
bbc.com/news/world-latin-america-37703406. upplýsingar um fjölda drepinna
kvenna á hverja 100.000 íbúa er að finna á heimasíðu CEPAL, „Feminicidio“. Sótt
þann 28. ágúst 2022 af https://oig.cepal.org/es/indicadores/feminicidio.