Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Qupperneq 191
HElGa KRESS
190
einar og án aðstoðar karlmanns borið ísskáp upp á aðra hæð. Sögumanninum
ofbýður að vonum þetta umræðuefni, sér ekkert merkilegt við það, en út
yfir tekur þegar femínistarnir fara að ræða um fræðikonu og kvenprófessor,
Veru Hress að nafni, og um hana og fræði hennar tala þær svo til söguna á
enda. Þannig koma kvennarannsóknirnar beinlínis í veg fyrir að karlinn geti
framkvæmt fyrirhugað kvennafar sitt. Konurnar hafa afkynjast af þessu tali
og aðdáun sinni á Veru þessari, og meira en það, þær eru orðnar að karl-
mönnum. Þær eru í „andófsbúnaði“ (bls. 8), gallabuxum og klossum, reykja
danska vindla, ósýnilegar í reykjarmekkinum, og er lýst sem vindlaglóðum.
Meðan þessu tali fer fram fantaserar sögumaður í huganum um konur
og kynlíf:
Hann fékk enn svona snert af tilfinningu, eins og fólk fékk snert
af sólbruna, en líklega var hann ekkert annað en gamalt náttúrað
svín að vera að hugsa um einstaka líkamshluta ungrar stúlku í stól
úti við glugga. Samt hafði hann aldrei kunnað við að káfa á kven-
fólki; fara með hendur upp eftir lærunum á því eða strjúka því um
bakhlutann eins og kynbótagripum. [...] Hann áttaði sig ekkert
á þessum ísskáp, og umhugsunin um hann gerði hann orðlausan
og einmana. Það skipti hann engu þótt þessar stúlkur væru karl-
mannsígildi hvað snerti burð á ísskápum milli hæða. (Bls. 8)
Í framhaldi af þessu fer hann að hugsa um Þuríði formann sem hafði aldrei
séð svona ísskáp en róið vertíðir. Hún hafði verið karlmannsígildi en samt
minnti hann að hún hefði eignast barn, og það ef til vill „komið undir í andófi
út af Selvogi“ – , hún hefur sem sagt verið við karlmann kennd. Hann leggur
þó við og við inn orð í umræðuna og spyr meðal annars hvað konur hafi að
gera með harða vöðva. Við þetta blossar upp vindlaglóð og gallabuxur og
klossar komast á hreyfingu: „Hvaða vöðva meinarðu,“ er spurt handan úr
sófanum, og bætt við: „þótt konur næðu jafnrétti við herraþjóðina, þá fengju
þær aldrei þann vöðva sem þér er efstur í huga.“ (Bls. 8) af þessu tilefni er
önnur þeirra látin vitna í erindi mitt á ráðstefnunni:
Ég vitna bara í Veru Hress, sagði vindilglóðin. Hún hefur bent á
menn, sem sjá ekkert nema kynferði við konuna. Í þeim hópi eru
rithöfundar, sem ættu að vera gæddir meiri sannsýni. (Bls. 8)
„Ég dreg ekki í efa,“ segir þá sögumaður, „að prófessorinn kann til vinnu-
bragða, sem gefa meðaltöl og frávik [...], en Vera Hress er að mínu mati