Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Page 205
HElGa KRESS
204
Haraldsdóttur og Magneu Matthíasdóttur.28 allar tóku þær undir með mér
og ætluðu ekki að mæta á hátíðina. „Nei,“ sagði Svava Jakobsdóttir: „Það
hvarflar að manni að þeir telji kvenfólk hvorki hafa hæfileika né skilning til
að tileinka sér það sem þarna verður á borð borið.“ „Hvet konur til að koma
hvergi nærri hátíðinni,“ segir Magnea Matthíasdóttir, „Karlremba og íhalds-
semi,“ segir Ingibjörg Haraldsdóttir, „Ekkert annað en ljóðlistarhátíð karla,“
segir Sonja B. Jónsdóttir. Framkvæmdastjórinn, Knut Ødegård, var einnig
spurður álits, en hann kaus að tjá sig ekki um málið.
Það gerði hins vegar Einar Bragi óaðspurður í næsta Helgarpósti, 8. ágúst
1985, með pistli sem hann svo smekklega nefndi „Um kresslegan faraldur“.29
Hefst hann svo:
löngum hefur verið eftirsótt gaman að heyra skáldin skammast. Þess
vegna er alltaf nóg framboð á alls konar æsingaseggjum sem liggja
á því laginu að rægja þau saman útaf öllum fjandanum: peningum,
pólitík, hégómaskap . . . og nú er íslenskum ljóðskáldum ætlað að
skemmta skrattanum með allsherjarslag þar sem liði er skipt eftir
skapnaði manna.
Sirkusstjóri er Helga Kress og kann sitt fag.
athyglisvert er að árásin beinist alfarið að mér, sirkusstjóranum, en ekki þeim
sem leika listir sínar í sirkusnum, skáldkonunum, þótt undirtektir þeirra séu
augljóslega það sem vakið hefur upp þessa miklu sviðsetningu. Hér gengur
mikið á með æsingaseggjum, rógburði, slagsmálum, skömmum og skáldum,
að ógleymdu atriðinu skipting „eftir skapnaði manna“. Með athugasemd
minni í Morgunblaðinu, sem höfundur vísar til og kallar „uppspuna“, „heift“
og „heitingar“, á sirkusstjórinn ég, sem skyndilega breytist í herforingja, að
hafa þrumað „órökstuddar fullyrðingar yfir lýðnum“ og blásið „síðan í her-
lúður til merkis um að nú eigi skáldin að hefja leikinn og munnhöggvast.“
auk þess sem ég á að hafa sýnt hið mesta vanþakklæti, en eins og Sigurður a.
Magnússon, hafði Einar Bragi gert mikið fyrir konur: „Ég hóf ritferil minn,“
segir hann, „fyrir nærri fjörutíu árum á því að þýða skáldverk um eina kunn-
ustu kvenpersónu norrænna bókmennta: Dittu mannsbarn. Síðar hef ég þýtt
28 „’Móðgun við konur sem skrifa ljóð‘. Íslenskar skáldkonur gagnrýna karlrembu í
skáldavali norrænu ljóðlistarhátíðarinnar“, Helgarpósturinn 1. ágúst 1985, bls. 2–3.
29 Einar Bragi, „Um kresslegan faraldur“, Helgarpósturinn 8. ágúst 1985, bls. 4. Í
dálknum „Bréf til ritstjóra“.