Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Page 208
Itamar Even-Zohar
Staða þýddra bókmennta
innan fjölkerfis bókmenntanna
Inngangur að þýðingu
Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar var sett á laggirnar ný deild í bók-
menntafræðum við háskólann í Tel Aviv. Yfirlýst markmið aðstandenda
deildarinnar var að þróa nýjar bókmenntakenningar og stunda lýsandi rann-
sóknir á grunni þeirra. Sóttu menn meðal annars innblástur í skrif rússneskra
formalista og tékkneskra sporgöngumanna þeirra. Itamar Even-Zohar (f.
1939) var í doktorsnámi í bókmenntum við deildina á þessum tíma en náms-
árunum varði hann einnig að hluta við háskóla í Osló, Stokkhólmi og Kaup-
mannahöfn. Eru elstu rannsóknir hans á sviði þýðingafræða, sem beindust
að þýðingum milli Norðurlandamálanna, unnar undir leiðsögn dönsku próf-
essoranna Hans Sørensen og F.J. Billeskov Jansen. Meðan á Skandinavíu-
dvölinni stóð fékk Even-Zohar áhuga á íslenskum fornbókmenntum og
höfðu athuganir hans á hlutverki þýðinga fyrir þróun frumsaminna bók-
mennta hér á landi á miðöldum mótandi áhrif á kenningar hans. Doktors-
ritgerð Even-Zohars, sem hann varði árið 1971, fjallaði um þýðingafræði og
næstu árin gegndi hann kennarastöðu á því sviði við Háskólann í Tel Aviv.
Áhugi hans beindist hins vegar í stigvaxandi mæli almennt að stöðu og hlut-
verki bókmennta, lista og menningar innan samfélagsins. Lagði hann með
tímanum grunn að námi í menningarfræðilegum rannsóknum við skólann
og hefur hann starfað á þeim vettvangi seinni hluta síns ferils.
Markverðasta framlag „Tel Aviv-skólans“ til alþjóðlegra bókmenntarann-
sókna er fjölkerfiskenningin (e. polysystem theory) sem Even-Zohar hóf að
þróa á áttunda áratugnum, meðal annars á grunni skrifa rússnesku formal-
istanna Jurys Tynjanov, Boris Ejxenbaum og Viktors Žirmunskij. Kenningin
gengur út á að bókmenntir séu fjölþætt kerfi sem samanstandi af ýmsum og
Ritið
2. tbl. 22. árg. 2022 (207-216)
Þýðing
© 2022 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.22.2.8
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).