Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2022, Síða 210
STAðA ÞýDDRA BóKMENNTA INNAN FJöLKERFIS BóKMENNTANNA
209
Tileinkað minningu James S. Holmes
– framúrskarandi þýðingafræðings og kærs vinar
I
Þrátt fyrir almenna viðurkenningu á því viðamikla sögulega hlutverki sem
þýðingar hafa leikið við mótun menningar einstakra ríkja eru rannsóknir á
þessu efni fremur skammt á veg komnar. Í bókmenntasöguritum er reglan sú
að þýðingar séu aðeins nefndar þegar það er óhjákvæmilegt, til dæmis í um-
fjöllun um miðaldir eða endurreisnartímann. Vitanlega er hægt að rekast á
handahófskenndar athugasemdir um stakar bókmenntaþýðingar í umfjöllun
um ýmis önnur tímabil en þær eru sjaldnast fléttaðar með markvissum hætti
inn í sögulega greiningu. Maður er af þeim sökum litlu nær um hlutverk bók-
menntaþýðinga á vettvangi bókmenntanna eða stöðu þeirra innan viðkomandi
bókmenntakerfis. Og það er ekki heldur nein meðvitund um hvort þýddar
bókmenntir kunni að mynda sérstakt bókmenntakerfi. Þess í stað er algengast
að tala um „þýðingu“ eða „þýdd verk“ með hliðsjón af einstökum dæmum.3
Er unnt að draga aðrar ályktanir, það er að líta á þýddar bókmenntir sem
kerfi? Er sams konar menningarlegt og málfarslegt tengslanet milli þeirra
verka sem eru valin til þýðingar, líkt og af handahófi, og við gerum gjarnan
ráð fyrir að sé milli frumsaminna bókmenntaverka? Hvers konar innbyrðis
samband getur verið milli þýddra verka sem eru álitin vera fullmótaðar af-
urðir, innfluttar úr öðrum bókmenntum, teknar úr sínu upphaflega sam-
hengi og þar með aftengdar togstreitunni milli miðju og jaðars?
3 Í upprunalegri gerð sagði hér enn fremur: „Í raun er þessi staða lítið undr unarefni.
Því er nú einu sinni þannig varið að það heyrir til undantekninga að bókmennta-
rannsóknir, hvort sem þær eru helgaðar tímabilum, bókmenntagreinum eða höf-
undum, beinist að sögulegri virkni. Með líkum hætti er aðeins fjallað í framhjá-
hlaupi um ýmis fleiri bókmenntakerfi, ef þau eru þá nefnd á annað borð. Barna-
bókmenntir, smásagnaútgáfa tímarita og spennusögur, svo dæmi séu tekin, eru öll
á sama báti og þýðingarnar. Vísindalegar bókmenntarannsóknir á Vesturlöndum, í
nýlegum tilraunum til að brjótast undan staðnaðri söguspeki, hafa látið íhaldssam-
ari fræðimönnum vettvanginn eftir. Að ýmsu leyti hefur okkur miðað skammt frá
því að rússnesku formalistarnir stunduðu rannsóknir sínar á fyrri hluta þriðja ára-
tugarins. Skrif Tynjanovs, Ejxenbaums eða Žirmunskijs um forsendur bókmennta-
sögu og sagnfræði eru enn í fullu gildi og bíða þess að vera nýtt af alvöru. Dæmið
af þýddum bókmenntum er því ekki einstakt í þessu samhengi og við skulum hafa
það í huga þó að við gerum þær að meginviðfangsefni hér. Eins og vafalaust er ljóst
nota ég hugtakið „þýddar bókmenntir“ ekki aðeins til hægðarauka, sem styttingu
á hinni ítarlegu skilgreiningu „samsafn þýddra bókmenntaverka“, heldur sem heiti
um flokk texta sem raðast saman í kerfi og hafa virkni sem slíkir.“