Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 20
á vegum föður míns og J. P. T. Bryde, en í smáum stíl fyrstu
árin en jókst smámsaman. Við lok verzlunar J. P. T. Bryde hér
1914 tók Þorsteinn Þorsteinsson & Co við þeirri slátrun, sem
hún hafði annazt um. Sláturfélag Suðurlands, sem stofnað var
1907, hóf slátrun í Vík 1914. Hér sáu fjögur fyrirtæki um slátrun,
Sláturfélag Suðurlands, Halldór Jónsson, Þorsteinn Þorsteinsson og
Kaupfélag Skaftfellinga. Laust fyrir síðari heimsstyrjöld risu hér
frystihús. Kaupfélag Skaftfellinga setti frystiklefa í sláturhús sitt
1:937 og Verzlun Halldórs Jónssonar ári seinna. Um leið var að
nokkru horfið frá því að salta kjöt fyrir markað í Noregi og
brátt var því með öllu hætt.
Kaupfélag Skaftfellinga rak sjálft sláturhús skamma hríð en tók
þá við forstöðu sláturhúss Sláturfélags Suðurlands hér í Vík.
Sláturfélagið kom upp slátur- og frystihúsi á Kirkjubæjarklaustri
árið 1942. Dró þá til muna úr sauðfjárslátrun í Vík.
Er tímar liðu, voru stofnuð útibú austan Mýrdalssands, frá
Kaupfélagi Skaftfellinga að Kirkjubæjarklaustri og frá Halldórs-
verzlun að Hörgslandi á Síðu. Þegar svo bifreiðir fóru hindrunar-
lítið að flytja vörur austur, settu nefndar verzlanir útibú í öllum
hreppum austan Mýrdalssands, og starfa þau enn til mikilla
þæginda.
Við árslok 1950 keypti Verzlunarfélag Vestur-Skaftfellinga, er
stofnað var sama ár, Verzlun Halldórs Jónssonar ásamt verzlun-
arvörum og útistandandi skuldum. Húsakynni verzlunarinnar
keypti félagið nokkrum árum seinna, og hafa þau nú verið endur-
bætt eftir kröfum tímans. Verzlunarfélagið hefur þar verzlun sína
og skrifstofur. Sláturhús, stækkað og endurbætt, rekur það í sömu
húsum. Nú starfa hér í Vík tvær samvinnuverzlanir og aðrar ekki.
Sem eftirmála læt ég fylgja skrá yfir verðlag ýmissa vöruteg-
unda frá árinu 1895, þá elztu, sem ég hef handbæra, svo og verð á
sænskum trjávið frá 1906. Þetta hef ég tekið úr verzlunarbókum
og finnst nauðsynlegt að halda því til haga. I dag kann ýmsum
að virðast þetta verðlag ótrúlega lágt, en þess er að gæta, að
verð á innlendum afurðum var einnig lágt og vinnulaun 15-20
aurar um tímann. Verzlun nú á tímum er líka miklu hagstæðari
en áður var og ekki sambærileg við það sem var árið 1895. Búin
18
Goðasteinn