Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 87
Raddir lesenda
Goðasteinn hefur enn fengið hlýjar kveðjur, sem hann fagnar
og þakkar. Frú Þorbjörg Þorsteinsdóttir á Rauðhálsi í Mýrdal
skrifar: „Innilega þökk fyrir „Goðastein". Ég vissi ekki um þann
Goðastein en vissi vel, að til var sá jarðfasti steinn, er ber það
nafn. Oftar hef ég þó heyrt hann nefndan Guðnastein, eins og
hann er nefndur í vísunni alkunnu:
Sjórinn er sem fjaðrafok,
fjöllin stynja í leyni.
Það er alveg öskurok
út af Guðnasteini.
Mér dettur í hug, að máske væri þessi nýi Goðasteinn svo
vænn að lofa gamalli vísu eftir afa minn, Gunnar Einarsson,
Jóhannssonar að tylla sér einhversstaðar á horn hans. Afi var
mikið ljúfmenni og því heitt elskaður af börnum sínum. Mamma
var vön að segja, að bezta veganesti sitt í lífinu hefði verið heil-
ræði hans. Það var víst hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í
Holtsendabaðstofunni, en þar ríkti gleði og friður. Afi minn var
söngelskur og lét börn sín læra að syngja og kveða, eftir því sem
hann gat. Hin löngu og dimmu skammdegiskvöld liðu fljótt við
söng og kveðskap. Þá var mikið gjört að því að kveðast á.
Bergur bróðir mömmu var vel hagmæltur, og kom það oft í
góðar þarfir; þegar hann vantaði vísu, orti hann sjálfur í skarðið.
Ég ætla að láta hér vísu, sem hann sendi í bréfi til mömmu fyrir
um það bil 40 árum. Hann bjó vestur í Canada, og lýsir vísan
viðhorfi hans til fólksins þar þá. Hún er svona:
Er í þessu undraríki
óstöðvandi pest:
Skemmtifíkn og flökkusýki
fólkið þjáir mest.
Gaðasteinn
85