Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 59
úrskurða, hvern hann kysi sér að eftirmanni. Hann ákvað, að
Þorlákur ábóti skyldi hljóta embættið og létu menn sér vel líka.
Ekki verður neitt fullyrt, hvað réð ákvörðun Klængs í þessu efni,
en telja má sennilegt, að Jón Loftsson í Odda, sonarsonur Sæ-
mundar fróða, hafi ráðið einhverju um það.
Jón Loftsson var um þessar mundir valdamesti og ríkasti höfð-
ingi landsins. Þorlákur hafði að mestu alizt upp í Odda og verið
þar í skóla. Oddaverjum hefur að sjálfsögðu leikið hugur á að
efla áhrif sín með því að fá Skálholtsbiskup kosinn úr sínum hópi
og Jón Loftsson hefur haft fulla ástæðu til að ætla, að hinn ný-
kjörni biskup yrði Oddaverjum fylgiskapur, þótt á annan veg færi,
þegar til kom.
Þorláki ábóta virðist biskupskjörið hafa komið á óvart og fýsti
hann ekki að taka við staðarforráðum í Skálholti um sinn. Klæng-
ur varð við að una, og Þorlákur hélt aftur heim til klausturs síns.
En sjúkleiki Klængs magnaðist brátt svo mjög, að hann gat cngum
störfum sinnt. Hafði hann raunar lengi verið lítt starfhæfur og
staðurinn því kominn í niðurníðslu. Á miðjum næsta vetri, eftir
að Þorlákur hafði verið kosinn, sendi Klængur menn austur að
Þykkvabæjarklaustri til að biðja Þorlák biskupsefni að koma þeg-
ar til Skálholts og taka við biskupsstörfum. Þorlákur brá við og
var kominn til Skálholts í marzlok. í fylgd með honum að austan
var Jón Loftsson höfðingi Oddaverja.
Þorlákur dvaldist nú um skeið í Skálholti og gegndi embætti,
en Klængur var sjúkur og rúmfastur. En það var ekki nóg, að
Þorlákur væri kosinn til biskups og hefði tekið við embættinu,
heldur varð hann einnig að sigla á fund erkibiskups og fá af
honum vígslu. Vígslan var hin nauðsynlega staðfesting kirkjunnar
á embætti hans, og óvígður gat hann ekki rækt starf sitt sem
biskup lengur en brýnasta nauðsyn krafði. Þegar sú staðreynd er
höfð í huga, hlýtur það að vekja furðu, hversu lengi hann sat
óvígður í Skálholti. Vorið“ii74 var Þorlákur kosinn biskup og við
embættinu tók hann snemma árs 1175, en hann fór ekki utan í
vígsluför fyrr en sumarið 1177 og vígðist fyrst sumarið 1178 eða
fjórum árum síðar en hann var til starfsins kosinn.
Ekki var svo að skilja, að Þorlákur hefði ekki fullan hug á að
17
Goðasteinn