Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 53
vildi ekki leggja í lækinn. Kvað hún þá svo að orði: „Upp fyrir
botn fer ég ekki aftur, því þá lendi ég í myrkri“. Grána tók ekki
af henni ráðin í heimferðinni. Undinn var bráður bugur að þvi
að koma líkinu í húsaskjól. Yar komið við á Fellsmúla. Guðna
bónda varð að orði, er hann vissi um fundinn: „Mér hálf datt
þetta í hug, því mig var að dreyma hana Siggu í nótt. Mér fannst
hún koma til mín, fá mér stafinn og segja: „Hér er stafurinn þinn,
Guðni minn. Ég þarf hans ekki lengur með, ég er ekki svo langt
í burtu“.
Fréttin um fund Sigríðar svo nálægt bæ í Króktúni fékk mjög
á Guðrúnu húsfreyju þar. Mun hún hafa fengið það, sem nú er
nefnt taugaáfall, er hún vissi um slysið, enda langt á leið komin.
Bað hún Guðna í Fellsmúla um hús fyrir líkið, sem var fúslega
veitt.
Sigríður hafði verið á réttri leið, aðeins haldið fullmikið í
veðrið. Átti hún um einn km ófarinn að Króktúni. „Það drukknar
margur nærri landi“, segir máltækið. Mcrki sáust þess, að Sigríði
hefði mjög verið tekið að kala, er hún lézt, einkum á fótum. Var
þó í tvennum sokkum og hafði bundið að sér pilsin um hnén til
skjóls en um leið heft gönguna. Talið var, að ýsurnar hefðu átt
þátt í dauða hennar. Það var venja Sigríðar, er hún hafði eitthvað
meðferðis að færa húsbændum sínum og þeim gat vel komið, að
hraða förinni sem mest og forðast alla bæi.
Nokkrir steinar voru látnir ofan á steininn, þar sem Sigríður
fannst. Er það kölluð Sigríðarvarða og hefur verið haldið við
til þessa dags. Gröf Sigríðar er vallgróin og flestum gleymd í
Skarðskirkjugarði og margir hér í sveit þekkja ekki Sigríðarvörðu
og söguna, sem hjá henni gerðist 6. marz 1892. Við vörðunni
hrófla veður, því kletturinn, sem hún stendur á, er ávalur að ofan.
Fyrr en varir eyðist hún og atburðurinn gleymist, nema einhver
góðviljaður maður verði til þess að festa kross á steininn.
5i
Goðasteinn