Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 48
frásögur mætti færa, af því sem gerðist á bæjunum fyrir vestan
Steinasand umræddan laugardag, þegar komið var úr Djúpavogs-
ferðinni. Þann dag röru Sunnsendingar (svo nefndust þeir, sem
heima áttu vestan Steinasands) og fóru til Hrollaugseyja. Þrjú
sker, laust vestan við hásuður frá Breiðabólsstað, nefnast því
nafni. Þangað er hálfsannarstíma róður á sexæringi frá Breiða-
bólsstaðarfjöru. Skerin heita Austastaey, Miðey og Vestastaey.
Mjótt sund skilur þær fyrrtöldu, en Vestastaey er spöl vestar. f
miklum rosum gengur brim yfir þær, nema þá austustu, þar sem
hún er allra hæst. Þar er nú kominn viti, og á kvöldin, þegar ég
sé hann blossa suður af bænum mínum, vorkenni ég honum ein-
veruna á þessu eyðiskeri. Á sumrin slettir selur sér upp á neðstu
flasir á Hrollaugseyjum, og á haustin kæpir þar lítilsháttar af
útsel. Um ferðir þangað út er sagt: „Þeir fóru til eyja. Þeir eru
að koma frá eyjum“. Síðast var farið til selveiða í Hrollaugseyjar
haustið 1929. Meðan eyjaferðir voru stundaðar, var farið haust
og vor, þegar sjóveður gaf. Á haustin var sjóveður vandfengið,
mörg haust féllu úr, en stundum gaf til eyja fleiri haust í röð.
Einatt kom fyrir, að hleðsla á sexæring af sel fékkst í haust-
ferðum og þótti gott í bú að leggja. Var það kópur og þó oft
meira fullorðinn selur. Á vorin eða sumrin var veiðin minni. Sel-
urinn var rotaður með bareflum úr tré, seigu efni vel til tegldu.
Voru þau nefnd selakeppir eða keppir. Það mátti segja, að alit
væri notað af selnum ,jafnvel garnirnar voru verkaðar upp, ristar
og vandlega skafnar. Fléttað var í þær mjóum spikræmum, síðan
látnar stutta stund í salt og svo reyktar í eldhúsi. Þegar þetta
þótti hóflega reykt, var það soðið og þótti góður matur. Mikill
fengur þótti jafnan að fá sel, sbr. máltækið: „Allt er safi hjá
selveiði“.
I eyjaferðinni, sem farin var umræddan laugardag 1902, veidd-
ust 3 selir og 5 í hlut af ýsu. Þetta var góð björg, hálfur selur á
bæ og 10-15 ýsur, eftir því hvað margir hlutir komu á heimili.
Nú þurfti engu að kvíða, hvert bjargræðið á fætur öðru var
framundan í huga fólksins.
46
Goðasteinn