Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 29
mikið væri í hverju íláti, til þess að mjólkin „settist“ sem bezt,
þ- e. að sem mest af rjóma kæmi ofan á í mjólkurílátunum.
Eftir mjaltir var ánum hleypt út. Lögðust þær þá á kvíabólið
um stund. Svo kom smalinn með kökubitann í hendinni og rak
þær í hagann. Þá þurfti líka að reka kýrnar.
En í dag þurfti margt að gera, því sólin skein glatt. Það átti
að þvo ullina. Hlaðin voru útihlóð úr kekkjum og grjóti, settur
þar á 5 fjórðunga pottur og hitað þar á þvælið á ullina, sem var
sambland af gamalli keytu, safnaðri frá vetrinum, og vatni. Kaggi
var hafður til að þvæla ullina í. Var henni troðið í hann með
ávinnslukvísl og svo með berum fótum, þegar tiltækilegt þótti
vegna hita. Síðan var ullin reidd í kláfum á hesti á þann stað,
sem úr henni var skolað. Að því búnu var hún sett upp í smá-
hrúgur, þar sem hún beið breiðslu á þerridegi. Klukkan 6 að
kveldi var ullarþvottinum lokið. Þá varð smalinn að fara að smala
ánum, og þá endurtóku sig sömu störf og um morguninn með
mjaltir og mjólkurmeðferð. Leið svo að háttumálum. Karlmenn og
krakkar fóru fyrst í rúmin. Konur áttu þá eftir að ganga um
baðstofu, hirða blaut og óhrein föt, gera við slitna kúskinnskó og
setja þurr og hrein plögg við hvert rúm til næsta dags. Sokkum
var snúið á hæl hjá vinnumönnum, einkum ef einhver hlýleiki
var á milli vinnumanns og vinnukonu. Þetta voru síðustu verkin
þann dag. Öllu þessu varð, að sjálfsögðu, móðir mín að vinna
að og stjórna, auk matseldar og matarskömmtunar. Þá var hverj-
um einstökum skammtað í sína skál eða á ask og disk, eftir því
hver fæðan var í hvert sinn. Allt varð þetta að metast eftir fólk-
inu, karlmenn þetta marga spaðbita í súpuskálina, konur ögn
minna og krakkar minnst, heila eða hálfa köku með fiski og
kartöflum o. s. frv. Þetta var vandasamt og vanþakklátt starf, og
stundum voru takmarkaðar birgðir, en enginn mátti verða af-
skiptur. Skammtað var venjulega í búri og öllum færður sinn
tnatur á sitt rúm. Þar sat hver með sína skál eða disk og sjálf-
skeiðing og hornspón, sem stungið var svo í rúmshornið eða undir
sperru í skarðsúðarbaðstofunni. Borðað var þrisvar á dag, kl. 9,
kl. 3 og 7 að kvöldi að vetri til en að sumri kl. 10, og var þá
einungis borðað skyr.
Goðasteinn
27