Goðasteinn - 01.09.1963, Blaðsíða 74
sinn á ævinni. Það skipti engum togum, að tekið var til við að
lemja bæinn utan með þvílíku offorsi, að kalla mátti, að hann
léki á reiðiskjálfi. Heimamenn urðu óttaslegnir en þó vildi
einhver ráðast til útgöngu og vita, hverju sætti um ófögnuð
þann. Húsbóndinn aftók hinsvegar, að nokkur hreyfði sig úr
bænum, og var því hlýtt. Á þessu gekk alllanga stund, en þar
kom, að allt datt í dúnalogn. Enginn hreyfði sig til útgöngu
að heldur.
Ekki er getið værðar eða drauma á Skeiði nótt þá, er í hönd
fór, en illa brá bónda, cr hann reis úr rekkju og svipaðist um úti.
Skemma hans hin góða var brotin upp og hroðin að hinurn
beztu föngum. Reki mikill var þegar gerður að því að komast
á slóð þjófa þeirra, sem þarna höfðu verið að verki, en furðu
torsótt reyndist það.
Nú skal geta manns, er Björn hét og bjó á Skálabæjum austur
undir Eyjafjöllum. Hann var illmenni og talinn klækjarefur. Pati
komst á um það, að hann hefði verið á ferð í Vestur-Landeyjum
ránkvöidið, og þótti þá fangs von af frekum úlfi. Bráðlega fékk
Björn orðsendingu frá sýslumanni Rangárvallasýslu, er boðaði
hann til fundar við sig á tilteknum degi. Björn gegndi kalli og
fór ekki í grafgötur með, hvað í vændum var. Sýslumaður vissi
ekki við hvern var að etja og talaði við Björn í einrúmi. Kom
þá upp, að Björn væri borinn þeirri sök að eiga hlut að ráninu á
Skeiði. Björn brást hinn versti við, sveif á sýslumann og svipti
honum upp fyrir kistu, sem var þar inni. Kvað hann þá um líf
eða dauða að tefla, nema hann færi frjáls og ósakaður af þeim
fundi. Sýslumaður varð að gjalti og gaf Birni loforð um að láta
hann í friði. Reið Björn svo leiðar sinnar, en málið rak í strand.
Nokkru seinna brá Björn búi á Skála og flutti út í Vestmanna-
eyjar. Þangað flutti hann með sér óþokkaorð það, er á honum lá.
Getið er þess, að roskinn bóndi hjó í eyjunum, fésæll og auð-
ugur vel. Hann átti drjúga fjárfúlgu inni í verzlun þar og bætti
við hana frá ári til árs. Honum bauðst til kaups jörð uppi á
landi og fannst gott að festa fé sitt þar. Óskaði hann þá að fá
innstæðu sína greidda að meginhluta. Á tilteknum tíma fékk
hann þá fúlgu í hendur og fór með hana heim. Morguninn eftir
72
Goðasteinn